Agnieszka Ewa Ziólkowska varaformaður Eflingar býður sig fram í miðstjórn Alþýðusambandsins nú þegar Sólveig Anna Jónsdóttir hefur dregið framboð sitt til baka. Það stefnir því í að ef kosið verður í embætti í dag að Ólöf Helga Adolfsdóttir, sem féll í formannskjöri félagsins gegn Sólveigu Önnu Jónsdóttur og Agnieszka verði fulltrúar Eflingar í forystu ASÍ.
Þær tvær hafa leitt einskonar andófshóp gegn Sólveigu Önnu og Baráttulista hennar innan Eflingar en ekki náð hljómgrunni meðal félagsmanna. En hafa hins vegar notið mikils stuðnings frá skrifstofu ASÍ og frá félögum innan Starfsgreinasambandsins sem ekki tilheyra þeim armi sem vilja knýja á um breytta stefnu og áherslur Alþýðusambandsins eftir langan niðurlægingartíma.
Meðal þeirra má nefnda Halldóru S. Sveinsdóttur formanns Bárunnar og Finnboga Sveinbjörnssonar formanns Verkalýðsfélags Vestfirðinga, en þau tvö sitja í verkalýðsmálaráði Samfylkingarinnar með Agnieszku. Og Drífu Snædal, fráfarandi forseta ASÍ sem lýsti yfir ánægju með framboð Ólafar Helgu til forseta Alþýðusambandsins, en Ólöf Helga hefur verið í framboði fyrir Vg.
Ef kosningar fara með þessum hætti má segja að ASÍ hafi valið aðra forystu yfir Eflingu hjá sér, þá sem félagar Eflingar höfnuðu í hörðum kosningum snemma á þessu ári. Niðurstaða þings ASÍ væri þá að Alþýðusambandið hafnar Eflingu. Og Efling Alþýðusambandinu einnig. Lögskilnaðurinn er aðeins eftir.
Kannski má líkja þessu við þegar Vesturlönd viðurkenndu stjórnvöld í Taiwan sem lögmædd stjórnvöld alls Kína en ekki stjórnvöld í Bejing.
Myndin er af einu fulltrúum Eflingar sem sitja enn þing ASÍ, þeim Ólöfu Helgu og Agnieszku Ewu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga