Alltof lítið framboð af íslenskukennslu fyrir útlendinga

Lina Hallberg og Victoria Bakshina segja íslenskukennsla fyrir útlendinga veika. Of fá námskeið eru í boði og í raun engin umfram grunnnám. Fólk sæki því í íslensku sem annað mál í Háskóla Íslands, en það henti illa og fáir útskrifist. Í máli þeirra kom fram að margar skýrslur séu skrifaðar um nauðsyn íslenskunáms en í reynd séu aðgerðirnar máttlitlar.

Lina og Victoria komu að Rauða borðinu í gær og héldu áfram umræðunni um íslenskuna á tímum fólksflutninga. Þær sögðu almennan vilja meðal innflytjenda að læra íslensku og tóku undir mikilvægi þess. Enskan ætti ekki að verða millimál.

Þær sögðu kröfuna um íslenskunám í vinnutíma góða. Íslenskunám væri tímafrekt og ekki hægt að reikna með miklum árangri ef það væri stundað eftir fulla vinnu. Kannski tvær vinnur.

En megin vandamálið væri framboð á íslenskunámi. Það væru um átján fyrirtæki og félög sem bjóða upp á íslenskukennslu en ekkert þeirra er með námskeið fyrir lengra komna, þau sem vilja geta tekið þátt í innihaldsríkari samtölum, ráðið við að ræða um heilsu sína við hjúkrunarfólk eða um leigusamninginn við leigusalann, svo dæmi séu tekin.

Og þótt tilgreint sé á hvaða stigi námskeiðin séu væri ekki hægt að finna út hvernig stigin væri skilgreint. Ef markmiðið væri að byggja upp orðaforða þyrfti orðalistann að vera aðgengilegur. Í stað slíkra skilgreininga væri byggt á sjálfsmati nemendanna og námskeiðin og aðferðirnar væri ólíkar eftir þeim fyrirtækjum eða félögum sem héldu þau. Þegar spurt var um hugsunina að baki væru svörin að aðferðirnar hefðu reynst vel.

Þær Victoria og Lina sögðu að bæta þyrfti allt námsefni mikið. Sumt væri byggt á kennslugögnum úr öðrum tungumálum en það virkaði illa. Það væri ákveðnir erfiðleikar við íslenskuna sem væru vel yfirstíganlegir ef nemandinn kæmi að þeim þegar hann væri kominn með tiltekinn grunn. En ef framvindan byggðist á öðrum tungumálum eða því sem hentar þeim sem hafa íslensku sem móðurmál getur námið orðið of erfitt og flókið fyrir innflytjendur.

Rannís veitir átján námskeiðahöldurum styrki upp á rúmlega 140 m.kr. árlega til að sinna þessu mikilvæga verkefni. Erfitt væri að átta sig á hvað réði styrkveitingum, hvers vegna einn fengi þessa upphæð en sá næsti aðra. Og miðað við umfang, mikilvægi og ávinning er augljóst að þetta er alltof lág upphæð. Ávinningur af því að kenna innflytjendum íslensku er gríðarlegur. Ekki bara fyrir fólkið sjálft sem tengist samfélaginu betur heldur fyrir samfélagið sem fær þá fleiri virka þátttakendur. Einangrun vegna veikrar tungumálakunnáttu flyst milli kynslóða og vandinn vefur upp á sig, getur orðið að miklu samfélagsmeini.

Þær bentu líka á að til þess að fá styrkt til íslenskunáms frá stéttarfélögum þurfi fólk að vera fullgildir meðlimir, en fólk getur unnið hér í hálft ár eða lengur og borgað til félagana án þess að verða félagar og hafa rétt á þessum styrkjum.

Afstaða Íslendinga til tungumálsins væri líka erfið. Það er lenska hér að finna að því hvernig fólk talar, hvort það beygi öll orð rétt og hvort það er með hreim eða ekki. Það væri því mikil raun fyrir útlendinga að tala eða rita íslensku, vitandi að þau sem hlusta eða lesa séu á vaktinni með að meta íslenskuna en alls ekki innihaldið. Það þarf vakningu meðal Íslendinga, að þeir átti sig á að þetta er ósiður sem virkilega dregur úr vilja innflytjenda til að læra og nota íslensku.

Þær Victoria og Lina sögðu að innflytjendur væru sjaldnar boðnir að borðinu þar sem rætt er um íslenskuna eða íslenskunám. Mikið væri samið af skýrslum og álitsgerðum en sú hlið sem snýr að innflytjendum sem vilja læra málið væri veikburða og óreiðukennd.

Íslenskukennsla fyrir innflytjendur heyri til dæmis undir fjögur ráðuneyti eftir uppstokkun stjórnarráðsins fyrir ári. Í einu ráðuneytið vissi starfsfólkið ekki af þessum málaflokki í vor, hálfu ári eftir breytingarnar.

Sjá má og heyra viðtalið við þær Linu og Victoriu í spilaranum hér að ofan.

Mikið hefur verið rætt um stöðu íslenskunnar á tímum fólksflutninga við Rauða borðið að undanförunum. Við mælum t.d. með þessu samtali Ármanns Jakobssonar og Eiríks Rögnvaldssonar:

Þessu samtali við Agniezsku Sokolowska um reynslu innflytjenda af íslenskunni:

Og þessu samtali við Sigurlaugu Soffíu Friðþjófsdóttur, m.a. um málstefnu, þar sem lítið sem ekkert er fjallað um innflytjendur og þau sem tala íslensku en hafa hana ekki sem móðurmál:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí