Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sagði á leið út af þingi Alþýðusambandsins að það væri ákvörðun félaga í Eflingu að ákveða hvort félagið myndi ganga úr Starfsgreinasambandinu og þar með ASÍ.
Sólveig Anna sagði að þrátt fyrir að hún hefði verið tvívegis kjörin sem formaður Eflingar hefði hún fengið að finna fyrir því að ekkert pláss væri fyrir hana og hennar baráttu innan ASÍ, hún hefði aldrei fengið stuðning eða viðurkenningu. Í gær hefði það svo gerst að að þingfulltrúar hafi reynt að ógilda kjörbréf allra fulltrúar Eflingar hafi orðið ljóst í hvert stefndi.
Mynd af Facbook-síðu stuðningsfólks Sólveigar Önnu og Baráttulistans í Eflingu. Þau gengu fagnandi út af þingi ASÍ.
Þegar Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR tilkynnti framboð til forseta Alþýðusambandsins sagði hann það einskonar úrslitatilraun til að byggja upp samhent og öflugt samband. Nú þegar hann hefur dregið sitt framboð til baka má reikna með því að hann leggi til að VR gangi úr ASÍ.
Til þess þarf Landssamband íslenskra verslunarmanna að ganga úr Alþýðusambandinu. Ef það er vilji stjórnar og félaga VR ætti það ekki að vera hindrun, því VR er 94% af Landssambandinu og Ragnar Þór er formaður á báðum stöðum.
Efling er aðili að ASÍ í gegnum Starfsgreinasambandið Samanlagður styrkur Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Grindavíkur og Framsýnar á Húsavík er um 55% af sambandinu. Það dugði þó ekki til að Sólveig Anna Jónsdóttir fengi kjör inn í framkvæmdastjórn sambandsins.
Ef Efling vill ganga úr Starfsgreinasambandinu þurfa 2/3 hlutar félagsmanna að samþykkja það í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Efling og VR eru samningsaðilar og geta staðið í sinni kjarabaráttu án landssambandanna eða ASÍ. Þau eru hins vegar skuldbundin til að leggja fé til ASÍ meðan þau eru þar undir, en um helmingur af tekjum ASÍ koma frá þessum tveimur félögum.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga