„Ég held að endurnýjað stjórnarsamstarf þessara þriggja flokka, þeir þrír flokkar sem í fyrsta sinn luku heilu kjörtímabili í þriggja flokka stjórn, byggist ekki síst á því að það er gott traust milli forystumanna flokkanna, það er límið í ríkisstjórninni. Þannig að það verður bara að koma í ljós ef það verða breytingar hjá einhverjum ríkisstjórnarflokkanna,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í einskonar framboðsviðtali við Dagmál Moggans.
Þarna bendir Bjarni á nokkuð sem gæti orðið inntak kosningabaráttunnar ef Guðlaugur Þór Þórðarson lýsir yfir framboði. Innan Sjálfstæðisflokksins eru blendnar tilfinningar og ólíkar skoðanir gagnvart ríkisstjórnarsamstarftinu, ekkert síður en innan Vg. Sjálfstæðisflokksfólk vill vera í ríkisstjórn en sú afstaða heyrist æ víðar og oftar að vera í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé of dýru verði keypt. Vg standi í vegi fyrir að stefnumál Sjálfstæðisflokksins nái fram að ganga.
Á móti sjónarmiðum um að þessi ríkisstjórn sé skárri en stjórnarandstaða gegn fjölflokkastjórn frá miðju til vinstri er annars vegar sagt að það gæti þvert á móti orðið flokknum hollt. Sjálfstæðisflokkurinn náði sér á stik í könnunum í stjórnarandstöðu gegn vinstristjórninni eftir Hrun en missti það síðan niður vegna stuðnings Bjarna við seinna Icesave. Framsóknarflokkur Sigmundar Davíðs tók til sín toppinn af fylgi Sjálfstæðisflokksins á lokametrum kosningabaráttunnar 2013. Og hins vegar að Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Viðreisn hafi samtals 35 þingmenn. Í slíkri stjórn næðu hægri menn fram miklu fleiri málum sínum. Ríkisstjórn Katrínar hafi notið trausts í cóvid en svo er ekki lengur. Sjálfstæðisflokkurinn fái því lítið sem ekkert út úr þessum samstarfi.
Eins og Bjarni bendir á að núverandi ríkisstjórn æ meira tengd persónulegu sambandi hans og Katrínar Jakobsdóttur. Það virkar vel í átökum gegn veiru en þegar kemur að stefnumörkun til framtíðar skilar það engu nema biðstöðu í öllum málum.
„Ég vil forðast það að gefa mér neitt í þessu. Við skulum sjá hvað setur. Það getur vel verið að menn séu að máta sig, en ég vil ekki fara að rekja hvað myndi gerast ef eitthvað,“ segir Bjarni í þessu viðtali.
Meira en sólarhringur leið frá því Morgunblaðið birti frétt um að Guðlaugur Þór væri að undirbúa formannsframboð þar til hann tjáði sig um málið í viðtali við Vísi. Þar sagði Guðlaugur Þór að margir hefðu skorað á sig og hann myndi tilkynna Bjarna ákvörðun sína, ekki lýsa yfir framboði fyrst í fjölmiðlum. Auðheyrt er af viðtalinu að Guðlaugur Þór er vel heitur fyrir framboði. Hlýða má á viðtalið við Guðlaug Þór hér: Bjarni fengi fyrstur að frétta af framboði til formanns.
„Við höfum ekki rætt þessi mál,“ svarar Bjarni spurningu um hvort hann og Guðlaugur Þor hafi rætt formannskjör. „Það hafa ekki verið nein átök milli okkar, bara ágætis samstarf verð ég að segja. Að því leytinu til kæmi mér á óvart ef þetta endaði með einhverjum átökum um forystuna í flokknum.“
„Ég held að á þessum tímapunkti á kjörtímabilinu og á flokkslegum nótum þá væri langmestur ávinningur að því fyrir alla að menn fyndu leiðir til þess að snúa bökum saman og styrkja flokkinn innan frá og sækja fram,“ segir Bjarni og vill auðvitað helst verða sjálfkjörinn.
Eins og Samstöðin benti á í gær hefur Bjarni aldri fengið afgerandi kosningu til formanns. Pirringur gagnvart honum hefur grasserað í flokknum. Flokksfólk hefur nánast frá upphafi þurft að verja sinn formann sem hefur farið úr einu hneykslismálin í annað. Almennir flokksmenn segjast orðið langþreyttir á þessu, myndu gjarnan vilja ræða pólitík fremur en formann sinn.
Aðspurður um kergju vegna vals á landsfundarfulltrúum í stöku flokksfélagi þar sem stuðningsmenn Guðlaugs hafa undirtökin, og vísað var til í frétt Moggans i gær, segir Bjarni: „Við skulum sjá. Ég held að þessi tilvik séu undantekning og kannski regla að einhverjir séu ósáttir við að komast ekki að.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga