Komin eru fram mótframboð í öll forsetaembætti Alþýðusambandsins, en kosið verður um forseta og þrjá varaforseta á morgun. Allt fram að framboði Ólafar Helgu Adolfsdóttur til forseta fyrir helgi leit út fyrir að jafnvel yrði sjálfkjörið í öll embætti.
Nú síðast bauð Gundega Jaunlinina, varaformaður Hlífar í Hafnarfirði, sig fram sem þriðja varaforseta gegn Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness.
Í morgun lýsti Trausti Jörundsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, yfir framboði til annars varaforseta gegn Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar.
Phoenix Jessica Ramos, fyrrverandi vinnustaðaeftirlitsfulltrúi Eflingar, hefur boðið sig fram sem fyrsta varaforseta gegn Kristjáni Þórði Snæbjarnarsyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins.
Og svo verður kosið á milli Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara stjórnar Eflingar og Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR.
Þetta er áhugaverð uppstilling. Annars vegar er fólk sem hefur talað fyrir breytingum á Alþýðusambandinu og sem allt gegnir áhrifastöðum innan hreyfingarinnar. Vilhjálmur er formaður Starfsgreinasambandsins, Ragnar Þór formaður Landssamband íslenzkra verzlunarmanna auk þess að vera formaður fjölmennasta verkalýðsfélagsins, Kristján er starfandi forseti ASÍ og formaður Rafiðnaðarsambandsins og Sólveig Anna formaður næststærsta verkalýðsfélagsins. Þrátt fyrir stöðu þessa fólks er talað um þau í umræðunni eins og árásarliðið.
Þau sem segjast vera til varnar ASÍ eru hins vegar grasrótarfólk, fremur en fólk sem kjörið hefur verið í valdastöður. Meðal frambjóðenda eru t.d. tveir félagar í Eflingu sem eru ósáttir við sinn formann.
Trausti og Gundega skrifuðu undir umtalað bréf sem nokkrir úr verkalýðshreyfingunni sendu inn á Vísi og var mikil vantraustsyfirlýsing á Ragnar Þór, en einnig Sólveigu Önnu. Undir það bréf skrifuðu líka fólk sem hefur gegnt starfi varaforseta og setið í miðstjórn, svo sem Halldóra S. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags, Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga og Þórarinn G. Sverrisson, formaður Öldunnar stéttarfélags, en ekkert þeirra bíður sig fram í forsetateimið.
Svo skemmtilega vill til að þær Ólöf Helga, Phoenix Jessica og Gundega voru allar á framboðslistum fyrir bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði. Ólöf Helga bauð sig fram fyrir Vg, Phoenix Jessica fyrir Pírata og Gundega fyrir Samfylkinguna.
Á myndinni er ný forysta Alþýðusambandsins er mótframbjóðendurnir ná allir kjöri, talið frá vinstri: Ólöf Helga forseti, Phoenix Jessica fyrsti varaforseti, Trausti annar varaforseti og Gundega þriðji varaforseti.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga