Vegna skerðinga á örorkulífeyri greiður fatlað fólk í reynd mun hærri skatta af atvinnutekjum en ófatlað launafólk. Yfir 60% og allt að 73% teknanna renna til ríkisins í formi skatta og skerðingar. Það er því lítill hvati fyrir fatlað fólk að sækja út á vinnumarkaðinn. Það er fast í fátækragildru.
Velferðarkerfið eða örorkulífeyriskerfið á Íslandi er um þessar mundir til endurskoðunar eftir nokkurra ára hlé þar sem tilraunir undangenginna ríkisstjórna til þess að koma á svokölluðu starfsgetumati í samráði við heildarsamtök Öryrkja hafa ekki gengið eftir.
Fatlað fólk hefur setið undir hótunum yfirvalda um frítekjumörk á meðan Tryggingastofnun Íslands í samvinnu við VIRK endurhæfingu hafa leynt og ljóst komið á starfsgetumati. Öryrkjar hafa á meðan setið eftir þó ýmsar kjarabætur til handa öðrum lífeyrisþegum og launafólki hafa verið samþykktar svo sem frítekjumörk á atvinnuþátttöku eldri borgara sem numið hafa um hundrað þúsundum króna.
Öryrkjar mega vinna sér inn fyrir svipaðri upphæð án þess að örorkulífeyrir skerðist en það fylgir sjaldnast sögunni að það sem kallast örorkulífeyrir er aðeins brot af heildar greiðslu öryrkja sem örorkubætur eru byggðar upp af og raunar innan við 50 þúsund krónur. Það er illskiljanlegt að TR láti þessa setningu standa á vefsíðu sinni svo villandi sem hún er. Í raun skerðast örorkubætur við hverja krónu sem unnin er.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra hefur nú skipað enn eina nefndina til að freista þess að breyta kerfinu í samráði við samtök öryrkja. Stýrihópinn skipa þau Steingrímur J. Sigfússon sem er í forsæti hans en aðrir meðlimir eru: Henný Hinz tilnefnd af forsætisráðuneyti, Óli Björn Kárason tilnefndur af fjármála og efnahagsráðuneyti og Eygló Harðardóttir tilnefnd af heilbrigðisráðuneyti.
Það að skipa Steingrím J. Sigfússon formann nefndarinnar og fyrrum félagsmálaráðherra Eygló Harðardóttur sem áður hefur mistekist að gera sambærilegar kerfisbreytingar vekur athygli og það var í stjórnartíð Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur sem skerðingar voru auknar til muna. Þær stjórnir sem hafa setið síðan hafa látið þessar skerðingar standa.
Hvernig koma skerðingar út?
Öryrkjar glíma alla jafna við einhverja tegund af fötlun sem gerir alla framkvæmd verka tímafrekari eða skerðir starfsþrek tímabundið og bylgjukennt. Það getur komið fram í því að það tekur fatlaðan einstakling lengri tíma að ganga eða flytja sig á milli staða, lengri tíma að lesa og lengri tíma að taka sig til fyrir vinnu. Þau fötluðu þurfa oft lengri svefni og afleiðing fötlunar geta komið fram með öðrum hætti. Þetta veldur því að fatlað fólk getur sjaldnast unnið fulla vinnu. Rannsóknir benda til að um 40% meiri kostnaður getur fylgt atvinnuþátttöku fatlaðra. Líta ætti því á atvinnu fatlaðra sem aukavinnu ofan á örorkulífeyririnn.
Við skulum skoða hvernig öryrkja farnast sem ræður sig í vinnu í samanburði við launafólk. Grafið hér að neðan sýnir hversu stóran hluta tekna renna til launamanns og öryrkja frá rúmlega 311 þús. kr. á mánuði.
Línuritið sýnir tekjur einstaklings sem fær 311.116 kr., sem er sú upphæð sem öyrki fær í örorkubætur og barnalífeyri, og síðan hevrsu mikið situr eftir af tekjunum eftir því sem tekjurnar aukast.
Ófatlaði launamaðurinn greiðir meira í lífeyrissjóð þar sem lífeyrissjóðurinn reiknast af allri upphæðinni en aðeins af 10 þús. kr. hjá hinum fatlaða. Þess utan eiga sér stað skerðingar við hverja unna krónu í tilfelli öryrkjans svo hann fær strax um 4 þúsund krónum minna af fyrsta 10 þúsund kallinum.
Ef við aukum tekjurnar upp í 50 þúsund þá sér Öryrki um 11 þúsund krónur af þeim í launaumslaginu en hinn almenni launþegi sér um 20 þúsundum meira eða rúmar 31 þúsund krónur. Þannig er öryrki alltaf að troða marvaðann í samanburði við launamanninn, ef hann hefur tímabundið starfsþrek.
Þegar aukatekjur öryrkja eru orðnar 70 þús. kr. er hann aðeins að sjá um 15 þús. kfr. af þeirri upphæð en ófatlaði launamaðurinn 43 þús. kr. eða nær þrisvar sinnum meira.
Svona heldur þetta áfram en af 100 þús. kr. ofan á 311 þús. kr.. sér öryrkinn 35% en sá ófatlaði 63% eða nær helmingi meira.
Munurinn helst nokkuð stöðugur að 120 þús. kr. bilinu en bilið fer fljótlega eftir það að breikka. Af 200 þús. kr. í aukatekjur sér hann aðeins rúmar 70 þús. kr. í launaumslaginu á meðan ófatlaður launmaður fær 124 þús. kr. eða langleiðina í tvöfalt hærri upphæð.
Við 350 þús. kr. viðbótartekjur sér öryrki um 117 þús. kr. en hinn ófatlaði 217 þús. kr. eða hundrað þúsund krónum meira.
Það má líta svo á að öryrkinn sé skattlagður tvöfalt þar sem pillað er undan grunninum frá TR við hverja unna krónu.
Þetta sést vel á þessu grafi sem sýnir hvert aukatekjur öryrkjans fara. Ríkissjóður tekur til sín bróðurpartinn af því sem öryrkinn vinnur sér inn.
Fatlað fólk er ekki til nema það hafi ekkert fyrir stafni
Öryrki sem getur tímabundið aflað sér auka tekna sér aldrei nema brot af þeim launum sem hann aflar sér. Hann finnur því aldrei fyrir umbun af vinnu sinni.
Þessi skerðing veldur því að öryrkinn á í erfiðleikum með að fá greiðslumat til fasteignakaupa, en það getur verið lykillinn að því að auka ráðstöfunartekjur þar sem húsnæðiskostnaður leigjenda er mun hærri en þeirra sem eiga húsnæði.
Jafnvel þó öryrki ætti 40 m. kr. eftir sölu á eign, væri með 170 þús. kr. í atvinnutekjur ofan á örorkulífeyri fengi hann í mesta lagi greiðslumat fyrir um 4 m. kr. húsnæðisláni. Það er því ekki skrítið að öryrkjar kalli eftir kerfisbreytingum.
Það á eftir að koma í ljós hverjar tillögur þeirra Steingríms, Eyglóar, Óla Björns og Hennýjar verða. Það hefur verið gagnrýnt af öryrkjum að enginn fatlaður einstaklingur situr í þessum starfshópi en slagorð ÖBÍ er: Ekkert um okkur án okkar.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga