Í Ástralíu er talað um félagslegar hörmungar vegna hækkunar á húsaleigu á undanförnum mánuðum. Húsaleiga er að nálgast að vera 25% af ráðstöfunartekjum fólks og það er kallað á aðgerðir, leiguþak og stórátak í að byggja upp félagslegs húsnæði. Á Íslandi greiða 2/3 hlutar leigjenda meira en 30% tekna sinna í leigu. Ástandið hér er margfalt alvarlegra en það sem kallað er félagslegar hörmungar í Ástralíu.
Húsaleiga í Ástralíu hefur hækkað gríðarlega á undanförnum tólf mánuðum. Á almennum leigumarkaði hefur húsaleiga hækkað um 15-23% á tímabilinu, en allt að 44% á einbýlishúsum á þeim svæðum sem hækkunin hefur orðið hvað mest. Mestu hafa hækkanir verið í stórborgum eins og Sidney, Canberra og Brisbane.
Í kjölfar þessara holskeflu hækkana á húsaleigu hefur krafan um leiguþak og leigubremsu orðið hávær í Ástralíu. Fræðimenn á í háskólum og rannsóknastofnunum hafa talað fyrir nauðsyn þess að setja á leiguþak, því kostnaðurinn við að gera það ekki getur orðið skelfilegur að þeirra sögn. Það getur haft miklar afleiðingar ef leigjendur verða keyrðir niður í fátækt og fjárhagserfiðleika.
Á sama tíma hafa risið upp kröfur um að stórátak í uppbyggingu á félagslegu húsnæði, að rót vandans sé ekki síst skortur á ódýru og öruggu húsnæði sem markaðurinn er ekki hæfur til að skaffa.
Samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar sem birt var fyrr í sumar kom í ljós að 27% leigjenda greiða yfir 40% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Hlutfallið er 9% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Hár húsnæðiskostnaður er því margfalt meira vandamál hjá leigjendum. Og miklu stærri vandi hér en í Ástralíu þar sem kallað er eftir aðgerðum.
Um tíundi hluti allra leigjenda á Íslandi ver meira en 70% ráðstöfunartekna í að borga húsaleigu. Og ríflega fjórðungur leigjenda þarf að greiða yfir helming tekna sinna í húsaleigu.
Samkvæmt rannsókn sem fyrirtækið Prósent framkvæmdi fyrir HMS og tók til húsnæðiskostnaðar leigjenda árið 2021 þá var niðurstaðan sú að einungis þriðjungur leigjenda greiða minna en 30% ráðstöfunartekna í húsnæðiskostnað. 2/3 hlutar leigjenda greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað.
Það sem talað er um sem hættuástandi í Ástralíu er litið á sem normalt ástand á Íslandi.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga