Fjöldi leigjenda með íþyngjandi húsnæðisbyrði tvöfaldast

Fjöldi þeirra leigjenda sem bera íþyngjandi húsnæðisbyrði hefur tvöfaldast frá árinu 2007. Íþyngjandi húsnæðisbyrði er talin af OECD vera ef 40% eða meira af ráðstöfunarfé fer í húsnæðiskostnað. Árið 2005 var hlutfallið fimmtán prósent hjá leigjendum, hæst fór það árið 2017 í tæp þrjátíu og fimm prósent en lendir í tuttugu og átta prósentum sumarið 2022.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar, þar segir hins vegar ekki um hvernig dreifing húsnæðiskostnaðar er hjá þeim sem bera íþyngjandi húsnæðiskostnað, hversu margir borga meira en fimmtíu prósent og þar fram eftir götunum. Nýlega kom fram í fréttum að húsnæðiskostnaður hjá öryrkjum á leigumarkaði væri allt að 70% af ráðstöfunarfé, og jafnvel hærra. Þær fréttir ríma vel við skýrslu OECD sem segir að húsnæðiskostnaður leigjenda sé mun meiri en mælingar Hagstofunnar gefa til kynna. OECD setur ísland í hóp með Kosta ríka, Chile og Spáni þar sem hlutfall láglaunafólks á leigumarkaði með íþyngjandi húsnæðiskostnað nálgast að vera 50%.

Það kemur einnig fram í greiningu á vef Hagstofunnar að hlutfall fasteignaeigenda sem bera íþyngjandi húsnæðiskostnað lækkar um tæplega helming, fer úr sextán prósent í tæp níu. Þetta á sér stað á sama tíma og húsnæðisverð hækkar þrisvar sinnum meira en byggingarkostnaður. Sá aukni kostnaður við að kaupa sér fasteign hefur því ekki skilað sér í stærra hlutfalli íþyngjandi húsnæðiskostnaðar hjá kaupendum.

Hækkandi fasteignaverð virðist einungis koma niður á leigjendum

Ástæða þess að svimandi hækkanir á fasteignaverði virðast koma verst niður á leigjendum eru þrenns konar, í fyrsta lagi þá hefur kaupendahópurinn minnkað mjög með tilkomu hindrana stjórnvalda, en með því að þrengja skilyrðin tryggja stjórnvöld að aðeins þeir sem eru velmegandi og verðugir fái að skuldsetja sig fyrir nýju húsnæði, fólk með lægri laun endar á leigumarkaði. Það er því ekki svo einfalt að halda því fram að skuldastaða heimilanna hafi batnað, heldur hefur fólki með lægri laun verið hent út af eigendamarkaði, þar sem það endar svo á leigumarkaði.

Í öðru lagi þá hafa stjórnvöld nánast horfið af húsnæðismarkaði með félagslega valkosti og látið fjárfestum eftir að annast borgara sína, sem hefur dregið fram verstu hliðar peningavaldsins með uppkaupum á húsnæði og sjálftöku á leigumarkaði. Í þriðja lagi er það vald leigusala yfir leigjendum sem birtist í þeirri staðreynd að fasteignakaupandi skeytir litlu um verð á fasteign sem ætluð er leigumarkaðnum, því leigjandinn mun borga.

Síðast en ekki síst þá er það fjármagns- og fjárfestingavæðing húsnæðis- og byggingageirans sem hefur orsakað verðhækkun sem kemur verst niður á leigjendum. Undanfarin áratug hefur orðið töluverð mikil samþjöppun, þar sem tiltölulega fáir aðilar stjórna ferðinni, bæði er varðar lóðaframboð, skipulag og þróun, byggingu og sölu. Skipulagður skortur ýtir undir og viðheldur háu fasteignaverði og kemur í veg fyrir að leigjendum sé innkomu auðið.

Leigumarkaðurinn er sannarlega fátæktargildra, þar sem leigjandinn tekur nauðugur að sér fjárhagsskuldbindingar leigusalans. Á þeim grunni hefur verðmyndun á fasteignamarkaði byggst undanfarin einn og hálfan áratug, þ.e. að fasteignaeigandinn framselur skuldbindingar sínar til leigjandans sem greiðir nauðugur þær skuldbindingar og rúmlega það. Leigjandinn sem kemst ekki undan eins og kannanir sýna er þægileg bráð og sú staða veldur hömluleysi og yfirboðum kaupenda, því þeir þurfa ekki að borga sjálfir.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí