Miðað við niðurstöður septemberkönnunar Gallup myndi ríkisstjórnin fá 30 þingmenn ef gengið yrði til kosninga nú, tapa samanlagt átta þingmönnum. Sjálfstæðisflokkurinn myndi missa einn, Vg þrjá og Framsókn fjóra.
Gallup mælir Sjálfstæðisflokkinn næri kjörfylginu frá því fyrir ári, með 24,1% fylgi sem er aðeins 0,3 prósentum lægra en í kosningunum. Þingmaðurinn sem flokkurinn missir er sá sem hann fann eftir kosningar, þegar Birgir Þórarinsson færði sig frá Miðflokknum yfir til Sjálfstæðisflokks. Þetta fylgi gæfi Sjálfstæðisflokknum 16 þingmenn.
Framsókn skreppur hins vegar saman um 3,9 prósentur og mælist með 13,4%. Vg minnkar um 4,4 prósentur og mælist nú með 8,2% fylgi. Framsókn fengi 9 þingmenn en ekki þrettán eins og fyrir ári og Vg fengi 5 þingmenn en ekki átta.
Flokkur fólksins tapar líka fylgi, missir 3,7 prósentur og mælist með 5,1% og þrjá þingmenn en ekki sex eins og fyrir ári.
Þarna eru ellefu þingmenn fallnir, en hvert fara þeir?
Miðflokkurinn mælist með 5,4% fylgi, það sama og í kosningunum. Hann endurheimtir því þingsætið sem Birgir Þórarinsson hafði af flokknum.
Samfylkingin mælist nú með 16,3%, sem er 6,4 prósentum meira en fyrir ári, fær 10 þingmenn í stað sex. Og Píratar mælast með 13,6%, sem er 5,0 prósentum meira en í kosningunum. Þeir fá 9 þingmenn en ekki sex eins og í kosningunum.
Viðreisn mælist með 8,5% sem er aðeins 0,2 prósentum meira en fyrir ári. Það dugar fyrir 5 þingmönnum eins og í kosningum.
Sósíalistar mælast með 5,1% sem er 1,0 prósentu meira en fyrir ári. Og þar sem það lyftir flokknum yfir 5% þröskuldinn myndi þrír Sósíalistar setjast á þing, ef niðurstöður kosninga yrðu þær sömu og könnun Gallup sýnir.
Svona skiptast þingmenn samkvæmt könnuninni (innan sviga breyting frá núverandi þingheimi, eftir flokkaflakk):
Ríkisstjórn:
Sjálfstæðisflokkur: 16 þingmenn (-1)
Framsóknarflokkur: 9 þingmenn (-4)
Vg: 5 þingmenn (-3)
Ríkisstjórn alls: 30 þingmaður (-8)
Hin svokallaða frjálslynda miðja:
Samfylkingin: 10 þingmenn (+4)
Píratar: 9 þingmenn (+3)
Viðreisn: 5 þingmenn (+/-0)
Hin svokallaða frjálslynda miðja: 24 þingmenn (+7)
Ný-hægri andstaðan:
Flokkur fólksins: 3 þingmenn (-3)
Miðflokkurinn: 3 þingmenn (+1)
Ný-hægri andstaðan: 6 þingmenn (-2)
Stjórnarandstaða utan þings:
Sósíalistaflokkurinn: 3 þingmenn (+3)
Ef við skoðum breytinguna frá kosningum þá er hún þessi:
Þessir bæta við sig:
Samfylkingin: +6,4 prósentur
Píratar: +5,0 prósentur
Sósíalistar: +1,0 prósentur
Þessi standa í stað:
Viðreisn: +0,2 prósentur
Miðflokkur: -0,1 prósentur
Sjálfstæðisflokkur: -0,3 prósentur
Þessir missa fylgi:
Flokkur fólksins: -3,7 prósentur
Framsókn: -3,9 prósentur
Vg: -4,4 prósentur
Könnun Gallup er gerð yfir allan mánuðinn og sýnir meðaltals fylgi flokkanna yfir september. Það er gott að hafa það í huga þegar Gallup er borið saman við Maskínu, sem mælir fylgið yfir nokkra daga.
Gallup mælir Sjálfstæðisflokkinn með mun meira fylgi en Maskína og Samfylkinguna með nokkru meira, en Framsókn, Viðreisn og Sósíalista með minna fylgi en Maskína.
Er þetta vísbending um fylgisbreytingar? Það er ómögulegt að segja því Gallup er í raun bæði í senn eldri og yngri könnun en Maskína.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga