Tryggvi Rúnar Brynjarsson er barnabarn Tryggva Rúnars Leifssonar, eins af sakborningum í Geirfinns- og Guðmundarmálum. Hann settist við Rauða borðið og sagði frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni og afa sínum og öðrum sakborningum. Og frá því hvaða áhrif þessi mál hafa haft og hafa enn, bráðum hálfri öld eftir að þau hófust.
Tryggvi Rúnar er einn þeirra sem standa fyrir samstöðufundi á Austurvelli kl. 14 í dag: Samstaða með Erlu Bolladóttur – 49 ár af mannréttindabrotum. Hann hefur kynnst Erlu og telur hana meðal sinna bestu vina, ræðir við hana um allskyns mál og ekki eins Geirfinnsmálið. Tryggva Rúnari svíður að samfélagið geri ekki upp þann órétt sem Erla hefur þolað í bráðum hálfa öld og veit að margt fólk er sama sinnis. Og því gefst kostur að sýna Erlu samstöðu í dag.
Annars vill Tryggvi Rúnar helst sjá rannsóknarnefnd Alþingis um Geirfinns- og Guðmundarmál. Sýknudómur Hæstaréttar tók í raun engan afstöðu til málsins, felldi fyrri dóm niður án þess að fara ofan í hvernig gat staðið á því að hann var felldur. Að baki var ákæra sem var röng og rannsókn sem var vitlaus. Þetta kallaði mikinn harm yfir margar fjölskyldur, sakborningana og fjölskyldur þeirra og fjórmenningana sem sátu í löngu gæsluvarðhaldi en sem var svo sleppt án ákæru, Einar Bollason, Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen.
Tryggvi Rúnar vill að rannsóknin nái aftur fyrir hvarf Geirfinns til að skýra hvers vegna lögreglan var svo upptekin af Klúbbnum, sem leiddi til þess að öll rannsóknin á hvarfi Geirfinns hverfðist um spírasmygl. Þá mætti draga fram hvers vegna Erla, Sævar Ciesielski og Kristján Viðar Kristjánsson bentu á fjórmenningana. Þá gæti komið í ljós að ríkið hafi brotið gegn fjórmenningunum, ekki það unga fólk sem Erla, Sævar og Kristján Viðar voru á þeim tíma.
Í viðtalinu segir Tryggvi Rúnar okkur frá afa sínum, sem hann leit upp til í æsku, en sem hann missti á unglingsárunum, en Tryggvi Rúnar eldri dó úr krabbameini fyrir sextugt. Tryggvi Rúnar yngri dýrkaði afa sinn og vildi allt gera til að líkjast honum og ganga í augu hans. Og hann vissi ekkert af Geirfinns- og Guðmundarmálum, þeim var haldið frá honum. Hann kynntist því afs sínum sem þeim manni sem hann sannarlega var án þess að þetta mál litaði samskipti hans nokkuð. Það var ekki fyrr en eftir að afi hans dó að Tryggvi Rúnar fór að skoða Geirfinns- og Guðmundarmál og áttaði sig á þeim áhrifum sem þau höfðu haft á afa sinn, móður sína, foreldra Tryggva Rúnars eldri, bræður hans og fjölskyldu.
Og hann segir okkur þessa fjölskyldusögu í viðtalinu. Og frá sinni sýn á málið, hver kveikjan hafi verið, hvers vegna rannsóknin fór þangað sem hún fór, hvers vegna kerfið hefu átt erfitt með að gera málið upp og hvaðan andstaðan kemur.
Við hvetjum ykkur til að horfa og hlýða á þetta áhugaverða viðtal í spilaranum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga