Vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað um 72.2% frá árinu 2010 en vísitala húsnæðisverð um 215% á sama tíma. Vísitala húsnæðisverðs hefur því þrefaldast, hækkað fjórum sinnum meira en almennt verðlag.
Verð á innkaupum og aðkeyptri þjónustu hefur hækkað í byggingariðnaðinum undanfarin misseri og þjóðin hefur sannarlega ekki farið varhluta af þeirri orðræðu. Fulltrúar samtaka iðnaðarins og aðilar á húsnæðismarkaði hafa flestir sagt að ljóst sé að hækkandi verð á aðföngum muni skila sér í enn hærri verði á húsnæði. Bæði hafa laun og almennt verðlag hækkað, og allt hefur það bein áhrif á byggingarkostnað og framlegð í greininni.
Vísitala neysluverðs á Íslandi hefur hækkað um 55.7% frá því í Janúar 2010 sem er ívið lægra en hækkun á kostnaði við aðföng og laun í byggingariðnaði. Kostnaður í byggingariðnaði hefur hækkað um 72.2% á þessum rúma áratug, en það er töluvert minna en launahækkanir á sama tímabili. Árið 2010 var meðaltal heildarlauna á Íslandi 438.000 kr á mánuði, en voru orðin 823.000 í árslok 2021, það er hækkun um 87.9%.
Hvaða ástæður eru fyrir því að laun hækki þriðjungi meira en byggingarkostnaður eru ókunnar, en annað af tvennu kemur þar til. Annars vegar að laun í byggingariðnaði, laun verkafólks og ófaglærðra hafi hækkað minna en almenn laun á vinnumarkaði og/eða að hagstæð innkaup og hagkvæmni í byggingariðnaði hafi skilað sér í lægri kostnaði. Hvað sem því líður þá hafa meðallaun í landinu hækkað umfram byggingarkostnað, en byggingarkostnaður hækkað meira en verðlag. Samkvæmt forstöðumanni hagfræðideildar Landsbankans, innt eftir því hvort hækkandi verð á aðföngum í ár muni skila sér í hækkandi byggingarkostnaði sagði hún í viðtali við RÚV fyrr í sumar:
„Vegna þess að íbúðaverð hefur hækkað miklu meira en byggingarkostnaður sé ekki endilega þörf á því að fleyta hærri byggingarkostnaði út í íbúðaverð.“
Vísitala húsnæðisverðs hefur hækkað um 215% frá því árið 2010, frá því að vera 303,3 punktar í 954,7 punktar í september 2022. Húsnæðisverð hefur hækkað þrisvar sinnum meira en byggingarkostnaður.
Á vormánuðum 2016 kynntu stjórnvöld breytingar á byggingarreglugerð sem áttu að lækka byggingarkostnað, og var í því samhengi metið að sá sparnaður yrði á milli 1-2 milljónir á íbúð og sá það myndi skila sér strax til kaupenda samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins 4. maí 2016.
Samkvæmt reiknivél byggingarkostnaðar hjá Hagstofu Íslands er byggingarkostnaður við hvern fermetra á vísitöluíbúð í Reykjavík rétt tæpar 250.000 kr. Söluverðmæti slíkrar íbúðar er hins vegar 660.000 kr. á hvern fermetra skv. Verðsjá fasteigna hjá Þjóðskrá.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga