„Þau tala eins og verkalýðshreyfingin hafi ekkert gert í 100 ár. Allt aumingjar og svikarar þangað til þau mættu. Það er algjörlega rangt. Hvað í ósköpunum hefur Ragnar Þór gert? Hvaða árangri hefur hann náð?“ spyr Ólafur Kjaran Árnason, stjórnarmaður í Samfylkingarfélagi Reykjavíkur í Facebook-hóp flokksins þar sem eru líflegar umræður um verkalýðsmálaráð flokksins sem hefur sett sig upp á móti framboði Ragnars Þórs Ingólfssonar til forseta Alþýðusambandsins.
Teitur Atlason, sem sæti á í flokksstjórn, ávarpar þau sem undrast ákvörðun Axels Jóns Ellenarsonar og segir að tilefnið hafi líklega aðeins verið dropinn sem fyllti mælinn. „Það hefur verið mjög ótrúlegt að fylgjast með rað-mistökum formanns framkvæmdastjórnar í samhengi við verkalýðsmálaráð. Ég undrast þá tilhneigingu formanns framkvæmdastjórnar að taka bara vitlausar beygjur í öllum málum.“
Teitur segir það slæmt að verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar var handvalið úr hópi þeirra sem urðu undir í Eflingarkosningunum. Sem Ólafur Kjaran segir rangt, fólkið hafi verið kosið af flokksstjórn. „Ragnar Þór er hins vegar hægrimaður og Sólveig Anna eitthvað allt annað en sósíaldemókrati. Átti flokksstjórn á kjósa þau?“
„Einn af kjörnum jafnaðarstefnunnar er valdefling verkalýðsfélaga sem mótvægi við valdsækni óbeislaðrar auðstefnu fjármagnsins,“ skrifar Birgir Þórarinsson aka Biggi veira, sem átti sæti á lista flokksins fyrir ári. „Þeir sem sjá ekki valdeflingu verkalýðsfélaga í Ragnari og Sólveigu eru ekki í þeirri stellingu finnst mér.“
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga