Verðbólga á Íslandi samkvæmt samræmdi verðbólgumælingu Evrópuríkja mældist 5,5% í ágúst. Þetta er með því allra lægsta í okkar heimshluta. Margt bendir til að það sé heldur að draga út verðbólgu fremur en hitt. Samt hækkaði Seðlabankinn vexti sína áðan, upp í 5,75%. Þar með Ísland eina landið með jákvæða raunvexti. Öll önnur lönd í Evrópu eru með neikvæða vexti, flest svo nemi mörgum prósentum.
Samstöðin fjallaði um þessa stöðu fyrir skömmu, sjá hér: Seðlabankinn með langhæstu raunvexti í Evrópu. Þar kom fram að verðbólgan er aðeins lægri í Sviss, 3,3%, en þar eru stýrivextirnir mun lægri á Íslandi og raunvextir íslenska seðlabankans því miklu hærri. Og í morgn hækkuðu þeir enn.
Seðlabankar Evrópu, og í raun alls heimsins, hafa hækkað vexti að undanförnu. En vextir bankanna voru lægri en á Íslandi í upphafi og þeir hafa hækkað minna og hægar. Peningamálastefna íslenska seðlabankans sker sig úr.
Verðbólguvandinn á Íslandi er líka annar en í öðrum ríkjum. Evrópuríkin glíma við hækkun orkuverðs sem orkustefnan magnar upp. Þegar gas hækkar vegna stríðs og viðskiptaþvingana þá hækkar allt orkuverð, þótt framleiðslukostnaður vatnsaflsvirkjan, vind eða sólar, hafi ekkert breyst. Þetta veldur því að ríkisstjórnir hafa annað hvort greitt verðið niður eða fryst. Meira að segja ríkisstjórn Liz Truss, sem er heittrúa á kennisetningar nýfrjálshyggjunnar, hefur fryst orkuverð, gripið inn í markaðinn. Seðlabankarnir eru því ekki að glíma við orkuverðshækkun heldur er þeirra hlutverk almenn verðbólgu vegna framboðsvanda.
Hér heima er Seðlabankinn kominn fram úr hinni almennu verðbólgu, hefur gert vexti sína jákvæða þegar húsnæðisliðurinn er tekinn frá, eins og raunin er í hinni samræmdu neysluvísitölu Evrópu. Hin mælda verðbólga á Íslandi er hærri, en þar er húsnæðisliðurinn inni. Og vaxtahækkanir hækka húsnæðiskostnað og ýta því undir verðbólgu á sama tíma og vaxtahækkanir gera fleirum ómögulegt að kaupa íbúð og draga þannig úr eftirspurn og lækka verð.
Glíma Seðlabankans er því að mörgu einstök miðað við aðra seðlabanka, því hann er fyrst og fremst að glíma við eignabólu sem hann blés út sjálfur. Lækkun vaxta skaut eignaverði upp, ekki síst á húsnæðismarkaði þar sem framboð er og hefur lengi verið langt undir eftirspurn.
Það sem gerir stöðu íslenska seðlabankans þó sérstakari, er að ríkisstjórnin lætur hann einan um glímuna við verðbólguna. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin bendi á eilítinn samdrátt hér eða þar eða segist ætla að fresta einhverjum aðgerðum, er fjárlagafrumvarpið mikið þenslu frumvarp með 90 milljarða króna halla.
Skattlagning á hin allra ríkustu myndi taka fé úr umferð ekkert síður en vaxtahækkanir Seðlabankans. Munurinn er að við skattahækkanir myndu þau borga sem hafa efni á því en vaxtahækkunin leggst á alla. Og kippir fórunum undan þeim sem minnst hafa. Og gerir stórum hópum ómögulegt að flýja okrið á leigumarkaði.
Og það er ekki hægt að benda á neinar aðgerðir hjá íslensku ríkisstjórninni sem minna á frystingu orkuverðs í Evrópu. Slík aðgerð hér heima væri leiguþak fyrir leigjendur og stórátak í uppbyggingu félagslegs húsnæðis til að auka framboð á húsnæði og lækka þar með verð.
„Það sem við erum að gera núna er að gefa upp boltann. Seðlabankinn er búinn að ná árangri. Við erum búin að hækka vexti. Áhrifin eru komin fram. Ætla aðrir að taka við boltanum?“, spurði Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri á kynningarfundinum í morgun.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga