Í samanburði við Norðurlöndin er staða barnafjölskylda á Íslandi ekki góð. Það er mun betur staðið að baki börnum og barnafjölskyldum þar. Hér fá til dæmis aðeins hin allra tekjulægstu barnabætur öfugt við á Norðurlöndunum þar sem bæturnar eru lítið tekjutengdar, segir Anna Mjöll Guðmundsdóttir, formaður samtakanna Fyrstu fimm, sem skilgreina sig sem hagsmunasamtök barnafjölskyldna.
Fæðingarorlof er nú tólf mánuðir á Íslandi, hefur nýlega hækkað, sem er gott að sögn Önnu Mjallar. En þegar kemur að tímanum eftir fæðingarorlofið þegar barnið þarf mikla athygli og hlýju frá foreldrum sínum er stuðningurinn á hinum Norðurlöndunum miklu meiri.
Anna Mjöll segir að stuðningur fyrirtækja hér sé líka minni en á Norðurlöndunum og vísar þar til reynslu félagsfólks í Fyrstu fimm sem hafa búið á Norðurlöndunum. Þar er auðveldara fyrir fólk að vera í hlutastarfi.
En sveigjanleiki á vinnumarkaði er aðeins hluti málsins. Húsnæðiskostnaður er lægri á Norðurlöndunum og barnabætur hærri og ekki skertar vegna tekna jafn heiftarlega og hér. Foreldrar hafa því betra svigrúm og betri stöðu til að vera meira með börnum sínum.
Anna Mjöll segir að það sé eins og börnin hafi gleymst á Íslandi. Samt ættu allir að gera sér grein fyrir hversu mikilvægt það er að hlúa vel að börnum og þar með foreldrum svo þeir geti betur sinnt börnum sínum. Hver króna sem við verjum í stuðning við börn skilar sér margföld til baka í framtíðinni. Það er ekki bara sárt ef börnum er ekki sinnt heldur dýrt fyrir samfélagið.
Félagið Fyrstu fimm leggur áherslu á mikilvægi fyrstu fimm áranna í lífi barna því þau leggja grunninn að heilsu og vellíðan ævina á enda. Stefna félagsins er að gera Ísland að barn- og fjölskylduvænna samfélagi þar sem ráðleggingar fremstu fagaðila í geðheilsu og vellíðan barna eru virtar.
„Við viljum að uppeldisskilyrði barna séu bætt, bæði heima og í leikskólum og stuðla að því að íslensk börn eigi sömu möguleika á að hámarka eiginleika sína og börn í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við,“ segir í stefnuyfirlýsingu félagsins.
Anna Mjöll segir mikið starf fram undan til að ná þessum markmiðum, en félagsmenn vilji ná saman foreldrum, fagfólki, yfirvöldum og almenningi til að breyta því hvernig samfélagið mætir börnum. Á því sé mikil þörf.
Í spilaranum hér að ofan má sjá og heyra viðtalið við Önnu.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga