Frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verður afgreitt þriðjudaginn 6. desember á fundi borgarstjórnar. Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokksins, Pírata og Viðreisnar leggur til að skorið verði niður um 210 milljónir króna í skólakerfi Reykjavíkur. Þetta kemur fram í breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram.
Lagt er til að skorið verði niður um 60 milljónir með því að hætt verði að ráða inn viðbótar sumarfólk úr röðum ungmenna til viðbótar við afleysingarfólk sumarið 2023 inn í leikskóla borgarinnar.
100 milljóna niðurskurði verði náð í rekstri mötuneyta leikskólanna. Þannig verður gert ráð fyrir að allir leikskólar fái pantaðan mat frá fyrirtækjum í stað þess að eldað sé á staðnum. Kostnaði verði náð niður með útboðum og lægstbjóðandi sjái þá um að skaffa börnum matinn.
Síðasti niðurskurðarliðurinn hljóðar upp á 50 milljónir króna. Honum verður náð með því að draga úr innkaupum á tækjum og áhöldum um 50% í leik- og grunnskólum.