„Forsætisráðherra ber sér á brjósti yfir breytingum sem gripið var til, til þess að bæta kjör öryrkja. Það er gott að hún getur glaðst yfir því litla sem gert var,“ skrifar Marinó Njálsson, einn af stofnendum Hagsmunasamtaka heimilanna á Facebook að kvöldi baráttudags gegn fátækt. Tilefnið voru ummæli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra úr púlti Alþingis.
„Satt best að segja, er ég ekki viss til hvers forsætisráðherra er að vísa,“ skrifar Marinó. „Ætli það sé þegar ríkisstjórnin viðurkenndi að spár hennar um verðlagsþróun gengu ekki eftir og ríkisstjórnin gerði tilraun til að bæta fyrir þau mistök sín?“
Það var Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins sem spurði Katrínu hvort ráðherrarnir vissu af baráttudegi fyrir útrýmingu fátæktar. Skildi ríkisstjórnin vita af því eða er þeim kannski bara alveg sama? spurði Guðmundur.
„Já við erum meðvituð. Erum við að gera eitthvað í þessu ? Já við erum að gera eitthvað í þessu,“ svaraði Katrín og fannst spurningin ósanngjörn: „Þó að það sé í raun ótrúlegt að heyra hann standa hér og halda því fram að ekkert hafi gerst. Að ríkisstjórnin sé fullkomlega ómeðvituð um það að það sé fátækt fólk í samfélaginu. Háttvirtur þingmaður veit miklu betur en svo, að tala svona hér í pontu Alþingis,“ skammaði Katrín Guðmund.
Katrín nefndi dæmi um eflingu barnabótakerfisins, breytingar sem hefur verið ráðist í til að bæta kjör öryrkja, lengingu fæðingarorlofs, breytingar á greiðsluþátttöku í heilbrigðiskostnaði sem hafi komið þeim sem minnst eiga milli handanna best, þrepaskipt skattkerfi sem hafi lækkað skattlagningu á þá tekjulægstu, hlutdeildarlán og aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að koma upp hagkvæmum húsnæðiskostum, minni skerðingar á öryrkja, tómstundarstyrkir og fleira.
Guðmundur Ingi sagði þá að þrátt fyrir allar þær aðgerðir sem Katrín taldi upp sé staðan sú að fólk í samfélaginu eigi ekki fyrir húsnæði eða öðru og viti ekki hvernig það eigi að draga fram lífið.
Og Marinó tekur undir.
„Mig langar að minna forsætisráðherra á 69. gr. laga nr. 100/2007. Í henni er fjallað um hvernig breyta eigi fjárhæðum örorkulífeyris á hverju ári. Þar segir mjög skýrt að taka skuli mið af launaþróun, en þó skuli hækkunin aldrei vera minni en hækkun vísitölu neysluverðs. Sem sagt að hækkunin skal miða við það af þessu tvennu sem er HÆRRA, ekki það sem hentar stjórnvöldum hverju sinni,“ skrifar Marinó.
„Í greiningu sem ég gerði í fyrir tæpum tveimur árum, þá komst ég að því, að öryrkjar hefðu verið sviknir um hátt í 500.000 kr. á ári, vegna þess að ríkisstjórnir hefðu hver af annarri ekki farið eftir ákvæði 69. gr. laga um almannatryggingar. Ég held að margur öryrkinn hugsi, eins og ég, að kominn sé tími til að stjórnvöld fari að lögum og bæti öryrkjum upp svik síðustu 15 ára. Nokkrir þúsund kallar á mánuði frá því í vor, bæta ekki upp svikin.
Svo er kannski rétt að minna forsætisráðherra á, að frítekjumörk öryrkja vegna atvinnutekna voru 1.315.200 kr. árið 2013 (samkvæmt 14. bráðabirgðaákvæði laga 100/2007) og eru enn 1.315.200 kr. níu árum síðar (og eiga að haldast óbreytt á næsta ári líka). Í þessu felst skerðing frítekjumarka upp á um 370.000 kr. á ári eða 30.800 kr. á mánuði. Hér eru sem sagt önnur svik sem m.a. hafa verið framin í tíð núverandi forsætisráðherra og sér ekki fyrir endann á því í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er höggvið í sama knérunn.
Í fjárlagafrumvarpinu er reynt að blekkja öryrkja með því að blanda sama skattbreytingum og fjárhæðum greiðslna. Sagt er að ráðstöfunartekju öryrkja hækki um 9%. Kannski er það rétt, en um fjórðungur þeirrar breytingar, er eitthvað sem kemur öllu lágtekjufólki til góða. Stjórnvöld ætla sem sagt að dulbúa það sem allir fá, sem einhverja sérstaka ráðstöfun yfir öryrkja. Lögin eru mjög skýr: „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“ Þarna er ekki talað um ráðstöfunartekjur með skattbreytingum, heldur greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. Nei, það á að beita lævísum blekkingum, því ljóst er að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur ætlar að halda áfram að ganga gegn bókstaf laganna. Og síðan, eins og áður er nefnt, verða frítekjumörk öryrkja vegna atvinnutekna óbreytt tíunda árið í röð.
Gott að geta barið sér á brjósti yfir að hafa gefið öryrkjum dúsu, þegar skerðingar aukast með hverju árinu. Katrín, Bjarni og Sigurður þurfa að gyrða sig í brók og leiðrétta kjör öryrkja, þannig að sómi sé af og hætta að stela af þeim leiðréttingunum sem innbyggðar eru í 69. gr. laga um almannatryggingar. Grein sem sett var inn til að einmitt koma í veg fyrir að öryrkjar (og ellilífeyrisþegar) drægjust sífellt aftur úr launþegum.
Tvennt að lokum:
- Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 7,5% á yfirstandandi ári. Seðlabankinn býst við um 8,5% og greiningaraðilar 8,7-8,8%. Gangi spá Seðlabankans eftir, þá þýðir það að bilið stækkar. Á næsta ári gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir að VNV hækki um 4.9%, sem er líka fyrir neðan spá Seðlabankans og greiningaraðila. Hér er hugsanlega enn ein gliðnunin.
- Framundan eru kjarasamningar, þar sem gera má ráð fyrir hækkunum taxtalauna um líklega 10% á næsta ári og síðan eitthvað á næstu árum á eftir. Samkvæmt 69. gr. laganna ætti að taka þessar hækkanir inn í fjárhæðir TR þegar þar að kemur. Það verður alveg örugglega ekki gert, heldur munu öryrkjar halda áfram að dragast aftur úr launþegum á laununum sem helst enginn vill vera á. Hvað segir það okkur þá um þær greiðslur sem allt of margir öryrkjar þurfa að draga fram lífið á?
Ég skora á þau þrjú, Katrínu, Bjarna og Sigurð, að horfa vel á sjálft sig í spegli á hverjum morgni út október og segja upphátt: „Ég er rosalega stolt(ur) af því hve vel ríkisstjórnin kemur fram við öryrkja á Íslandi!“ og láta svo okkur hin vita af því hvernig þeim leið á eftir. Hafi þeim liðið vel, þá skora ég á þau að segja af sér og koma aldrei framar nálægt stjórnmálum,“ endar Marinó færslu sína.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga