Kjaragliðnun milli eigenda fjármagns og launafólks

Ríkisfjármál 12. okt 2022

Fjármagnstekjur jukust um 46% að raunvirði milli áranna 2020 og 2021 en 81% fjármagnstekna rann til topp 10% landsmanna á því ári, að því er fram kemur í umsögn BHM um fjárlagafrumvarpið. Sagt er að hröð aukning fjármagnstekna milli ára gerði að verkum að ráðstöfunartekjur einstaklinga í efstu tekjutíund jukust þrefalt á við aðra hópa samfélagsins, eða um 12% að raunvirði miðað við 4% hjá hinum 90%.

Þessi þróun er framhald af lengri sögu en fjármagnstekjur hafa aukist um 120% að raunvirði á 10 árum. Á sama tíma jukust atvinnutekjur í íslenska hagkerfinu aðeins um 53%. Flest bendir til að nokkur kjaragliðnun hafi átt sér stað milli launafólks og fjármagnseigenda á áratugnum 2011-2021 og hún hafi aukist til muna á árunum 2020 og 2021.

Í umsögn BHM er nokkuð fjallað um þessa kjaragliðnun milli launafólks og fjármagnseigenda í samhengi við áskoranir á ári kjarasamninga. Eru stjórnvöld sögð standa frammi fyrir tveimur stórum verkefnum á árinu 2023. Annars vegar að koma böndum á verðbólguna með fjölþættum aðgerðum og hins vegar stuðla að kaupmáttaraukningu á næsta kjarasamningstímabili. 

Kalla eftir framtíðarsýn um heilbrigðiskerfið

Í umsögnininni segir að vísbendingar séu um að íslenska heilbrigðiskerfið hafi verið fjársvelt á tímabilinu 2008-2021 en á þeim tíma varði hið opinbera allt að 30% minna til heilbrigðiskerfisins á Íslandi en hin Norðurlöndin. Þessu var öfugt farið á tímabilinu 1986-2006 þegar Íslendingar vörðu allt að 20% meira til heilbrigðiskerfisins en hin Norðurlöndin, sem hlutfall af landsframleiðslu. 

Framlög til heilbrigðiskerfisins dragast saman um rúmlega 1% af VLF milli áranna 2021 og 2023. Ekki er því fyrirséð að þessi mynd breytist í bráð.

Í umsögninni kemur fram að horfa þurfi á vanda heilbrigðiskerfisins í samhengi við stöðu sveitarfélaganna. Telur bandalagið þá ótækt að hagkvæmni í rekstri sveitarfélaga verði náð á kostnað sérfræðinga sem þar vinna og eru í miklum meirihluta konur. Sérfræðingar hjá sveitarfélögunum eru lægst launuðustu sérfræðingar landsins en halda úti nauðsynlegri grunnþjónustu sem skapar verðmæti langt umfram þau laun sem þeim er skammtað.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí