Landsmenn orðnir 385 þúsund og þjóðin yngist og styrkist

Landsmenn voru 385.230 í lok september og hefur fjölgað um rúm níu þúsund það sem af er árinu. Mestu munar um fjölgun innflytjenda. Flestir innflytjenda er fólk á vinnualdri. Lýðfræðileg þróun íbúa heldur því áfram að batna, fleiri eru á vinnualdri miðað við börn og aldraða.

Fæddir umfram dána voru 550. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram aðflutta voru 490. Fjölgunin eftir þetta var því aðeins 60. Svo til öll fjölgunin er því vegna þess að hingað fluttu erlendir ríkisborgarar.

Fjöldi fólks á vinnualdri, 20-64 ára, á móti börnum og öldruðum er um 1,53. Hjá innfæddum, og fólki með annað foreldrið með íslenskan ríkisborgararétt, er þetta hlutfall mun lægra, eða 1,29. Ástæðan er að meðal innflytjenda af fyrstu og annarri kynslóð er hlutfall fólks á vinnualdri 4,20.

Þetta veldur því að spár um öldrun þjóðarinnar og of mikla byrði á vinnandi hafa ekki gengið eftir. Þetta sést vel á grafinu hér að neðan sem sýnir hlutfall fólks á aldrinum 20-64 ára gagnvart þeim sem eru yngri og eldri.

þafr

Grafið nær frá 1841 til síðustu áramóta. Þarna sjást sveiflur vegna hallæra og vesturferða á þar síðustu öld en síðan fjölgun fólks á vinnualdri á fyrstu árunum eftir kreppu og stríð en síðan dýfu vegna barnasprengjunnar, baby-boom, á sjötta og sjöunda áratugnum. Á níunda og tíunda áratugnum voru farin að sjást merki um öldrun þjóðarinnar, fæðingum hafði fækkað og fámennari aldurshópar komust á vinnualdur á sama tíma og fleiri urðu gamlir og þeir lifðu lengur. Á þessum tíma var farið að ræða fyrirsjáanlega vanda vegna fækkunar fólks á vinnualdri í hlutfalli við börn og aldraða.

Þetta breyttist hins vegar eftir aldamót og þróunin snerist við. Vegna hingaðkomu innflytjenda fjölgaði fólki á vinnualdri og það náði hámarki 2020, dróst aðeins saman í fyrra vegna afleiðinga cóvid-efnahagslægðarinnar, en hefur rokið upp í ár, bæði vegna vöntunar á vinnuafli og fjölgun flóttafólks.

Og flóttafólkið er líka flest á vinnualdri svo það hefur ekki dregið úr lýðfræðilegri styrkingu, heldur eflt hana enn frekar.

Þetta er umtalsverð breyting. Vegna þess hversu miklu fleiri innflytjenda og flóttafólks er á vinnualdri má segja að það séu auka 35 þúsund manns á vinnualdri á landinu en ef hlutfallið væri það sama og meðal innfæddra.

Þetta er um 16% allra sem eru á vinnualdri, hlutfall aukastyrkingar vegna innflytjenda. Miðað við verðlagningu vinnuaflsins jafngildir þetta um 300 milljörðum króna árlega. Það gefur nokkra hugmynd um verðmæti innflytjenda fyrir þjóðarbúið.

Og þessi styrking heldur áfram. Upplýsingar um aldursskiptingu innflytjenda og flóttafólks á þessu ári liggja ekki nákvæmlega fyrir en fólk á aldrinum 20-59 ára, eilítið þrengri skilgreining en hér að ofan, er 4,61 á móti börnum og öldruðum meðal innflytjenda og flóttafólks á fyrstu níu mánuðum ársins. Á mælikvarðanum hér að ofan er það árleg innspýting inn í vinnuaflið sem meta má á 22 milljarða króna, bara á þessum níu mánuðum.

Önnur leið til að meta mannauðinn sem hingað streymir er að áætla kostnað við að ala upp börn. Miðað við núverandi kostnað í skólakerfinu kostar nám frá leikskóla að útskrift í framhaldsskóla um 37,5 m.kr. Þetta borgar hið opinbera. Framfærsla barna miðað við opinber framfærsluviðmið að viðbættum húsnæðiskostnaði er um 20 m.kr. Það borga foreldrar. Og síðan er margskonar kostnaður annar við heilbrigðiskerfi og aðra innviði, sem börn njóta sérstaklega og almennt. Auðvitað er ekki hægt að reikna þetta upp á króna, en varlega áætlað kostar um 75 m.kr. að koma barni til manns.

Það mætti þá verðmeta 35 þúsund manns á vinnualdri upp á um 2.625 milljarða króna. Og ef við gerum ráð fyrir að aldurssamsetning flóttafólksins sé sú sama og innflytjenda almennt er þjóðhagsleg verðmæti þeirra þrjú þúsund sem sóttu um vernd fyrstu níu mánuði ársins um 185 milljarðar króna.

Það er mikið rætt um kostnað vegna flóttafólks og innflytjenda en í raun mætti verja miklu meiri fjármunum til að tryggja vellíðan þessa fólks og virkni í samfélaginu.

Helstu auður hvers samfélags er mannauðurinn. Og ef við horfum til fólks á vinnualdri þá eru innflytjendur 23% mannauðsins á Íslandi, bráðum 1/4.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí