Löggan lét kjaftasögu leiða rannsóknina

Dómsmál 13. okt 2022

Sagan sem höfð var eftir Guðmundi Agnarssyni í skýrslutöku hjá lögreglunni og varð síðar beinagrindin að kenningu lögreglunnar um hvarf Geirfinns var ekki eitthvað sem Guðmundur spann upp heldur kjaftasaga sem hafði mótast og borist um samfélagið frá hvarfi Geirfinns, að sögn Jón Daníelssonar blaðamanns sem ræddi Geirfinns- og Guðmundarmál við Rauða borðið. Kannski var það ástæða þess að löggan trúði sögunni, hún hafði borist svo víða að þeim fannst sem eitthvað hlyti að vera til í henni.

Jón segir að aðeins séu tveir kostir um upphaf hinna röngu sakargifta. Annað hvort eru þær komnar frá Sævari Ciesielski, Erlu Bolladóttur og Kristjáni Viðari Kristjánssyni eða frá lögreglunni.

Í dómnum var sagt að þau Sævar, Erla og Kristján hefðu sannmælst um að bera sök á fjórmenningana Einar Bollason, Magnús Leopoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen til að beina sök frá sér sjálfum. Þessi útgáfa hefur aldrei verið trúleg en er féll alveg þegar Hæstiréttur dæmdi að þau Sævar, Erla og Kristján hafi ekki framið glæpinn sem þau eiga að hafa viljað hylma yfir þátt sinn í.

Þá er bara eftir hinn kosturinn, að það hafi verið lögreglan sem bar söguna í ungmennin til þess að fá tilefni til að handtaka fjórmenningana. Að lögreglan hafi verið svo sannfærð um söguna um spírasmygl og tengsl Klúbbsins við hvarf Geirfinns að hún hafi talið að fjórmenningarnir myndu játa fljótt ef þeir yrðu hnepptir í gæsluvarðhald byggt á vitnisburði Sævars, Erlu og Kristjáns.

Og þetta segir Jón að sé ástæða þess að Erla Bolladóttir fái ekki endurupptöku. Það sé einfaldlega of þungbært fyrir dómskerfið að leyfa hinu sanna að koma fram. Dómskerfið sé íhaldssamt og menn innan þess vilji vernda heiður þess. Og af þeim sökum fái sannleikurinn ekki að koma fram.

Jón skrifaði bók um Geirfinns- og Guðmundarmál sem kallast Sá sem flýr undan dýri. Titilinn er fyrri hluti setningar sem Sævar Ciesielski skrifaði í dagbók sína. Setningin er Sá sem flýr undan dýri spyr ekki til vegar.

Jón segir að þar sé Sævar að lýsa yfirþyrmandi tilfinningum innilokunar og ógnar sem hann upplifði í Síðumúlafangelsinu. Sævari fannst sem hann væri í haldi einhverra klíku lögreglumanna sem hefði villst af leið og tekið lögin í sínar hendur. Sævar reyndi að koma skilaboðum til lögreglunnar í von um að hún kæmi og bjargaði honum úr þessari prísund. Það segir margt um hversu fáránlegt ástandið var, sögurnar heimskulegar og kúgunin algjör.

Jón var inntur eftir því hvort þjóðfélagsstaða ungmennanna hafi haft áhrif á hvernig lögreglan kom fram við þau. Jón taldi það augljóst. Þegar fjórmenningarnir voru settir í gæsluvarðhald fengu þeir að hitta lögmenn sína tvisvar í viku. Bæði Einar og Magnús lýstu því í endurminningum sínum hvernig þessar heimsóknir hafi haldið sér á floti, án þeirra hefðu þeir verið algjörlega á valdi lögreglunnar. Ungmennin fengu hins vegar sárasjaldan að hitta sína lögmenn, sáu engan né heyrðu nema lögregluna og fangaverði og gátu ekki rætt við neinn sem þau gátu talið að væri með sér í liði.

Þessi mismunun byggði á því að krakkarnir voru ungir, þeir voru af öðru sauðahúsi, voru í dópi og smáglæpum, klæddu sig öðruvísi og voru ögrandi í augum lögreglu og yfirvalda. Á þessum árum var mikill ótti gagnvart eiturlyfjum og því trúað að fólk sem neytti þeirra væri trúandi til alls. Jón telur að þetta hafi vissulega spilað inn í þá ótrúlegu þeytivindu sem þessi ungmenni lentu inn í

Jón ræddi marga aðra þætti þessa máls eins og kemur fram í myndbandinu í spilaranum hér að ofan.

Hér má líka sjá og heyra þrjú fyrri viðtöl við Rauða borðið við áhugafólk um Geirfinnsmálið. Fyrst var rætt við Soffíu Sigurðardóttur:

Síðan var rætt við Hjálmtý Heiðdal:

Og loks við Tryggva Hübner:

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí