Gylfi Zoega hagfræðiprófessor sagði við Rauða borðið að mikil hætta væri á að skuldsett ríki lentu í miklum vanda nú þegar bandarísk stjórnvöld væru að draga úr peningamagni í umferð. Það væri ekki hægt að sjá afleiðingarnar fyrir þar sem ekki væri ljóst hvar skuldirnar liggja, en ýmiss konar skugga-bankakerfi væri orðið svo umfangsmikið. En það er næsta víst að miklar efnahagshörmungar ættu eftir að ganga yfir ýmiss nýmarkaðsríki en líka lönd í Evrópu.
Gylfi nefndi sem dæmi að þegar bandaríkjastjórn dró úr peningamagni í umferð 1982 fór ríkissjóður Mexíkó á hausinn. Frá Hruni hefur verið prentað mikið af peningum og vextir hafa verið lágir. Nú er þetta að snúast við. Vextir hækka og peningamagn er minnkað. Þá munu þau lönd sem skulda mest lenda í miklum vanda. Það má því búast við fréttum af efnahagskreppu víða um heim, líka innan Evrópu.
Þetta var upphafið af samtali okkar við Gylfa Zoega við Rauða borðið. Hann fór síðan yfir sviðið og endaði á Íslandi þar sem hann reyndi að meta áhrif af litlu atvinnuleysi og mikilli eftirspurn eftir vinnuafli. Hann ræddi einnig mikil ávinning þjóðarbúsins af því að auka þjónustu við innflytjendur, ekki síst í menntakerfinu. Gylfi sagði ekki sjá aðra kynslóð innflytjenda í Háskólanum, sér skyldist að skýringin væri mikið brottfall í framhaldsskólum. Námið væri of erfitt fyrir þau sem ekki koma af heimilum þar sem íslenska er töluð og skólakerfið hefði ekki gætt þess að mæta þessu fólki og tryggja því aðgengi að menntun.
Heyra má og sjá viðtalið við Gylfa Zoega í spilarnum hér að ofan.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga