Segir Höllu hafa unnið á bak við tjöldin

Verkalýðsmál 20. okt 2022

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar á Húsavík sakar Höllu Gunnarsdóttur fyrrum framkvæmdastjóra Alþýðusambandsins um að hafa tekið þátt í aðförinni að róttækari armi hreyfingarinnar á þingi ASÍ. Framsýn ályktaði í gærkvöldið um deilurnar innan verkalýðshreyfingarinnar, hafnar þar því að forystufólk VR og Eflingar beri þar ábyrgð.

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hafnar því alfarið að ástandið innan verkalýðshreyfingarinnar sé á ábyrgð þeirra stéttarfélaga sem gagnrýnt hafa skort á gagnsæi og lýðræðislegum starfsháttum innan ASÍ og kallað eftir breytingum þar um. Opin og lýðræðisleg umræða um það hvernig verkalýðshreyfingin eigi að starfa og hvert hún skuli stefna hlýtur að vera forsenda þess að fólk geti unnið saman.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu eftir fund í gærkvöldi. Í ályktuninni harmar Framsýn stéttarfélag þá atburðarás sem átti sér stað á nýyfirstöðnu þingi ASÍ og leiddi til þess að þingfulltrúar VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur gengu á dyr. Það sem gerðist á þinginu var aðeins dropinn sem fyllti mælinn, eftir harðvítugar deilur innan hreyfingarinnar um langan tíma.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar kynnti sína afstöðu á fundinum:

„Forystumenn í lang fjölmennustu stéttarfélögum landsins stigu fram í aðdraganda þingsins og gáfu kost á sér til forystustarfa í Alþýðusambandinu,“ sagði Aðalsteinn. „Þau eiga það sammerkt að hafa kallað eftir áherslubreytingum í verkalýðsbaráttu á Íslandi nú þegar menn eru að sigla inn í krefjandi kjaraviðræður. Eins og hendi væri veifað fór fámennur en hávær hópur formanna innan Alþýðusambandsins af stað í sögulega herferð gegn því ágæta fólki sem var tilbúið að leiða sambandið til frekari sigra fyrir íslenska alþýðu. Þar fóru fremstir formenn sem hafa orðið undir og tapað völdum í hreyfingunni á undanförnum misserum og átt erfitt með að sætta sig við orðinn hlut.“

Aðalsteinn segir að hægri öflin í þjóðfélaginu hafi fagnað þessum ófriði að sjálfsögðu með flugeldasýningu og þá hafa afskipti fyrrverandi framkvæmdastjóra ASÍ vakið töluverða athygli. „Hún var ráðin til sambandsins á sínum tíma án þess að starfið væri auglýst sérstaklega, enda vinatengsl við þáverandi forseta,“ segir Aðalsteinn og á þar við Höllu Gunnarsdóttur fyrrum framkvæmdastjóra og Drífu Snædal fyrrum forseta ASÍ.

„Framkvæmdastjórinn fyrrverandi hefur átt sviðið í fjölmiðlum og fengið hvert tækifærið á fætur öðru til að tala niður forystumenn þeirra stéttarfélaga sem kallað hafa eftir breytingum í hreyfingunni. Að hennar mati bera þau ábyrgð á því hvernig komið er fyrir verkalýðshreyfingunni. Að sjálfsögðu nefnir hún ekki félaga sína og símavini í hreyfingunni sem farið hafa hamförum í orðræðunni gegn formönnum Eflingar, VR og Verkalýðsfélags Akraness. Það er mikil einföldun að halda því fram að formenn fjölmennustu aðildarfélaga ASÍ beri einir ábyrgð á því hvernig komið er fyrir hreyfingunni, þar bera fleiri ábyrgð samanber skeytasendingar í fjölmiðlum sem staðið hafa yfir um langan tíma og standa enn yfir.“

Aðalsteinn segir að það hafi vakið athygli á þinginu að ákveðinn hópur hafði safnað saman fulltrúum að baki tillögu um að þingheimur ógilti kjörbréf Eflingar sem var með um 18% af þingfulltrúum. Áður hafði Kjörbréfanefnd ASÍ staðfest að kjörbréf félagsins stæðust reglur ASÍ og lýst fulltrúa þess rétt kjörna. „Samt sem áður hófst skemmdarverkastarfsemin strax í upphafi þingsins,“ segir Aðalsteinn.

Eftir þingið er hreyfingin klofin. „Það var mjög sérstakt að upplifa það að forystumenn innan Starfsgreinasambands Íslands hafi viljað veikja stöðu sambandsins með því að styðja fulltrúa annars sérsambands innan Alþýðusambandsins í forsetakjöri, það er á móti formanni Eflingar, sem er stærsta aðildarfélag Starfsgreinasambandsins,“ segir Aðalsteinn.

„Ég minnist þess ekki að hafa upplifað svona nokkuð áður, hvað þá að forystumenn innan sama sambands hafi ætlað að koma í veg fyrir kjör Vilhjálms Birgissonar formanns Starfsgreinasambands Íslands í  sæti þriðja forseta ASÍ. Rétt er að taka fram, þetta er ekki reifari, þetta gerðist þótt ótrúlegt sé á þingi Alþýðusambands Íslands árið 2022.“

Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí