Segir Sjálfstæðisflokkinn vera stéttarfélag auðvaldsins

Verkalýðsmál 20. okt 2022

„Það er óhætt að segja að auðvaldið sé með afar öflugt stéttarfélag á bakvið sig sem er Sjálfstæðisflokkurinn sem er ætíð tilbúinn að vaða eld og brennistein fyrir hina ríku á kostnað launafólks, neytenda og heimilanna,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinafélagsins um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um afnám skylduaðildar að verkalýðsfélögum.

„Það hefur lengi verið vitað að Sjálfstæðisflokkurinn gengur erinda auðvaldsins og því er það í anda flokksins að vilja veikja stéttarfélögin sem hafa tekið það hlutverk að sér að benda á ójöfnuð, óréttlæti og misskiptingu í íslensku samfélagi,“ skrifar Vilhjálmur á Facebook.

„En ég spyr hvar eru þingmenn samstarfsflokks Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni og á ég þar við þingmenn Framsóknar og Vinstri grænna en ekkert hefur heyrst frá þessum aðilum varðandi þessa aðför sem sjálfstæðismenn vilja heyja gegn stéttarfélögunum,“ spyr Vilhjálmur og beinir orðum sínum að Vg og Framsókn.

Vilhjálmur hæðist svo að Sjálfstæðisflokknum: „Slagorð Sjálfstæðisflokksins er grátbroslegt sem er stétt með stétt og er þetta slagorð að mínu mati algjör öfugmæli og ætti frekar að vera auðstétt með auðstétt.“

„Það er markmið Sjálfstæðisflokksins og Samtaka atvinnulífsins að þrengja og veikja stöðu stéttarfélaganna eins mikið og kostur er og nægir t.d. að nefna óp Samtaka atvinnulífsins um að breyta þurfi vinnulöggjöfinni á ársfundi SA sem haldinn var um daginn,“ skrifar Vilhjálmur.

Vilhjálmur segir engum vafa undirorpið að staða á milli launafólks og atvinnurekenda er afar ójöfn þegar kemur að ágreiningi á milli starfsmanna og atvinnurekenda enda lífsviðurværi launamannsins í húfi. „Það er því lífsnauðsynlegt fyrir launafólk að hafa öflug stéttarfélög til að verja sín réttindi og það er það sem við erum að gera á hverjum einasta degi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur að meðaltali frá árinu 2004 farið með eitt mál á ári fyrir dómstóla þar sem um ágreining um túlkun á kjarasamningum er að ræða eða innheimtu vegna kjarasamningsbrota og í 90% tilfella hefur unnist sigur í þeim málum.

Hlutverk stéttarfélaganna er að verja og styðja sína félagsmenn þegar á þeim er brotið og standa vörð um þeirra réttindi og tryggja að hægt sé að sækja mál fyrir dómstólum án þess að kostnaður lendi á félagsmanninum. Það er nánast útilokað fyrir starfsmann að sækja rétt sinn einn og sér fyrir dómstólum sökum gríðarlegs kostnaðar sem því fylgir.

Það er rétt að geta þess að á árinu 2021 nýttu 70% félagsmanna VLFA þjónustu félagsins í gegnum sjúkrasjóð, orlofssjóð og menntasjóðina og er það fyrir utan alla aðra þjónustu sem félagið veitir á hverjum degi. Mikilvægi stéttarfélaga er gríðarlegt.

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef þessi aðför Sjálfstæðisflokksins að stéttarfélögunum næði í gegnum löggjafann enda er ég ekki í neinum vafa um að félagsleg undirboð og kjarasamningsbrot myndu margfaldast ef þessi ólög yrðu að lögum.

Stéttarfélögin eru að vinna gríðarlega mikilvægt starf á hverjum einasta degi við að verja sína félagsmenn enda búa þau yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði kjaramála. Stéttarfélögin sinna eftirliti með félagslegum undirboðum og kjarasamningsbrotum og eins og áður sagði er leikurinn á milli vinnuveitenda og launamanns afar ójafn og því afar mikilvægt fyrir launafólk að hafa aðgengi að öflugum stéttarfélögum,“ segir Vilhjálmur í færslunni.

Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí