„Í síðustu viku mæltu þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir frumvarpi um að skerða réttindi starfsmanna á opinbera vinnumarkaðnum og draga úr starfsöryggi þeirra. Í dag mæla þingmenn flokksins fyrir talsvert róttækari breytingum. Nú vilja þau fara að naga fæturna undan verkalýðshreyfingunni í heild, höggva að rótum þess sem gerir hreyfinguna sterka á Íslandi og stéttarfélagsaðild jafn mikla og raun ber vitni.“
Þetta sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður í umræðu um frumvarp Óla Björns Kárasonar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi sem fram fór á Alþingi í gær en þar er mælt fyrir um að skyldan til að halda eftir iðgjöldum til stéttarfélaga verði afnumin og að forgangsréttarákvæði í kjarasamningum verði bönnuð. Telja flutningsmenn að með þessu megi auka frelsi fólks.
„Stéttarfélagsaðild er hvergi meiri meðal OECD-ríkja heldur en hér, og á Íslandi hefur stéttarfélagsaðild haldist mjög stöðug meðan hún hefur hrunið víða annars staðar, hrunið m.a. vegna þess að hægrimenn og hægristjórnir hafa notað hvert tækifæri sem gefst til að veikja stéttarfélög með hörmulegum afleiðingum fyrir launafólk. Þetta tókst Ronald Reagan í Bandaríkjunum og þetta tókst Margréti Thatcher í Bretlandi. 92% íslenskra launamanna eiga aðild að verkalýðsfélögum og það er óumdeilt að þessa miklu félagsaðild má rekja til greiðsluskyldunnar til stéttarfélaga og forgangsréttarákvæða í kjarasamningum. Þessi mikla stéttarfélagaaðild hefur styrkt rétt launafólks, styrkt samningsstöðu þess gagnvart atvinnurekendum og gagnvart stjórnvöldum. Verkalýðshreyfingar hvarvetna í heiminum sáröfunda okkur af þessu, en nú vilja Sjálfstæðismenn ráðast í lagabreytingar til að kippa grundvellinum undan því sem gerir þessa stöðu mögulega.“
Þá fjallaði Jóhann Páll sérstaklega um forgangsréttarákvæði í kjarasamningum og áform Sjálfstæðismanna um að banna þau:
„Hverjar hafa verið helstu hindranirnar í vegi samtaka launafólks frá öndverðu? Þegar verkalýðshreyfingin var að slíta barnsskónum í upphafi 20. aldar gerðu atvinnurekendur allt sem þeir gátu til að brjóta þau niður. Atvinnurekendur neituðu að semja við þau, foringjum verkalýðsfélaganna og jafnvel óbreyttum félagsmönnum var bægt frá vinnu, það var leitað til annarra byggðalaga eftir starfsfólki og allt gert til að sundra launamönnum og hindra samstöðu þeirra. En forgangsréttarákvæði í kjarasamningum voru sterkasta vopn stéttarfélaganna gegn þessum aðferðum atvinnurekendavaldsins, voru algjört lykiltæki til að tryggja þátttöku í verkalýðshreyfingunni og þar með að verja lágmarksrétt launafólks og koma í veg fyrir að launamönnum væri att hverjum móti öðrum, koma í veg fyrir félagsleg undirboð og kapphlaup niður að botninum í kjörum launafólks, sérstaklega þegar litla vinnu var að hafa.
Forgangsréttarákvæði kjarasamninga þjóna sama tilgangi nú og þau hafa alltaf gert, að stuðla að samtakamætti og skipulögðum vinnumarkaði – og já, þau hvetja til aðildar að stéttarfélögum, eins ægilegt og það nú er! Þess vegna vilja Sjálfstæðismenn nú fara fram með boðum og bönnum, banna forgangsréttarákvæði, banna aðilum á vinnumarkaði að semja með ákveðnum hætti.“
Loks sagði þingmaðurinn að með frumvarpinu væru þingmenn Sjálfstæðisflokksins að hygla sérstaklega og ýta undir vöxt og viðgang gulra stéttarfélaga:
„Það sem flutningsmenn eru auðvitað að gera með þessu frumvarpi er að þau eru að rúlla fram rauða dreglinum fyrir gul stéttarfélög, auðsveip félög sem eru stofnuð til höfuðs almennum verkalýðsfélögum og þjóna sem vopn í höndum atvinnurekenda, grafa þannig undan baráttu allra hinna. Þetta er klassísk leið atvinnurekenda, á Íslandi og annars staðar til að sundra og brjóta niður baráttu launafólks. Og hér hygla þingmenn Sjálfstæðisflokksins þessum aðferðum í nafni frelsis og mannréttinda.“
Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga