„Staðan í dag er algjörlega óásættanleg og ég væri hissa á því ef forsætisráðherrann skildi það ekki. Ef ekki, þá verður fólk nálægt henni að upplýsa hana. Þessi farsi í kringum forystuna verður að hætta“.
Þetta eru ekki orð stjórnarandstæðings í Bretlandi, heldur koma þau frá Crispin Blunt, þingmanni Íhaldsflokksins. Hann hélt áfram gagnrýni sinni og krafðist þess að Liz Truss forsætisráðherra færi frá. Hann er ekki einn stjórnarþingmannana sem gerir það. Að minnsta kosti 13 aðrir þingmenn hafa krafist afsagnar forsætisráðherrans. Og fer þeim fjölgandi með hverri klukkustund.
Gærdeginum í breska þinginu má líkja við sirkus. Innanríkisráðherrann, Suella Bravermann, sem telst til hægri arms flokksins, sagði af sér og gagnrýndi viðsnúning á stefnu ríkisstjórnarinnar. Síðan urðu margir vitni af því í gær að þingmenn stjórnarinnar voru þvingaðir til að greiða atkvæði með því að leyfa vinnslu á jarðgasi (e. fracking), sem er mjög umdeilt í landinu. Forseti þingsins hefur hafið rannsókn á uppákomunni og hafa margir stjórnarþingmenn komið fram í fjölmiðlum til að gagnrýna framkomu sumra stjórnarþingmanna.
Verkamannaflokkurinn hefur krafist afsagnar ríkisstjórnarinnar og að boðaðar verði nýja kosningar, enda ekki furða þar sem skoðanakannanir benda til þess að Verkamannaflokkurinn myndi nær þurrka Íhaldsflokkinn af þingi væri kosið nú. John McDonnell, fv. skuggaráðherra fjármála fyrir Verkamannaflokkinn, tísti að ríkisstjórnin sé að leysast upp fyrir framan okkur. „Liz Truss verður að sætta sig við það að staða hennar sem forsætisráðherra er ósjálfbær. Öll frekari frestun á aðgerðum Íhaldsmanna til að leysa hnútinn mun einungis leiða til enn frekari skaða á hagkerfinu“:
Það er mat fjölmiðla í Bretlandi að staða ríkisstjórnarinnar fari versnandi dag frá degi. Liz Truss hafi tekist að snúa nær öllum flokknum gegn sér, bæði hægri og vinstri arminum. Til viðbótar hafa bresku dagblöðin, sem flest studdu hana í kosningum til formanns Íhaldsflokksins, snúist gegn henni. Hversu langan tíma það tekur er eitthvað sem veðbankarnir í landinu bjóða fólki til að veðja á.
Samstöðin er gjaldfrjáls vettvangur. Ef þér líkar efnið getur þú eflt Samstöðina með því að gerast félagi í Alþýðufélaginu og þá einskonar áskrifandi. Það kostar aðeins 1.250 kr. á mánuði, en þú mátt borga meira., Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga