Sjálfstæðisflokkurinn mun drepa húsaleigufrumvarp Framsóknar

Húsnæðismál 14. okt 2022

Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ítrekaði í ræðustól Alþingis í gær andstöðu Sjálfstæðisflokksins við frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um breytingar á húsaleigulögum. Þar er kveðið á um skráningu húsaleigusamninga sem Óli Björn sagði að væri brot á frelsi leigusala.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingar benti á að þetta frumvarp efndi ekki loforð ríkisstjórnarinnar til leigjenda í tengslum við lífskjarasamninginn þar sem því var lofað að verja leigjendur fyrir hækkun leiguverðs. Frumvarpið snýst um skráningu allra leigusamninga svo fyrir liggi opinber gögn um raunverulegt leiguverð. Í dag er aðeins hluta leigusamninga þinglýst. Þinglýsing er forsenda þess að leigjendur fái húsnæðisbætur. En þar sem þær eru tekjutengdar sér fólk með miðlungstekjur sér ekki hag af því að þinglýsa samningum.

Jóhann benti á að þótt frumvarpið væri alls ekki efnd á loforðum um leigubremsu þá hefði Sjálfstæðisflokkurinn sett sig upp á móti því og tryggt að það næði ekki fram síðast þegar það var lagt fram.

Þegar Óli Björn kom upp í ræðustól síðar í umræðunum ítrekaði hann andstöðu Sjálfstæðisflokksins við frumvarpið þar sem það þrengdi að frelsi leigusala.

Í tengslum við lífskjarsamninginn sendi ríkisstjórnin frá sér yfirlýsingu þar sem sagði m.a: „Ákvæði húsaleigulaga verði endurskoðuð til að bæta réttarstöðu leigjenda, meðal annars hvað varðar vernd leigjenda þegar kemur að hækkun leigufjárhæðar og bættri réttarstöðu leigjenda við lok leigusamnings.“ Frumvarpið efnir ekki þetta loforð.

Heldur ekki loforðið sem kom á eftir: „Stuðningur við hagsmunasamtök leigjenda verði aukinn.“

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí