„Ætli fylgi Sjálfstæðisflokksins fari ekki fljótlega niður í 10% markið? Það væri eðlilegt fyrir hreinræktaðan flokk fámennrar yfirstéttar,“ skrifar Stefán Ólafsson, prófessor og sérfræðingur Eflingar, í Kjarnann. Tilefnið er frumvarp þingflokksins um takmörkun á völdum og áhrifum verkalýðsfélaga.
Í frumvarpinu eru lagt til að kjarasamningsákvæði um forgang félagsmanna í stéttarfélögum til vinnu og greiðslu vinnuréttargjalds verði bönnuð. „Um þetta sömdu verkalýðsfélögin og samtök atvinnurekenda fyrir löngu, í frjálsum samningum,“ skrifar Stefán. „Þetta er mikilvæg stoð þeirrar vinnumarkaðsskipanar sem við búum við á Íslandi í dag.“
„Sjálfstæðisflokkurinn stígur nú fram sem flokkur atvinnurekenda og fjárfesta, ríkustu 10 prósentanna, sem jafnframt vinnur gegn hagsmunum hinna 90 prósentanna, þorra launafólks,“ skrifar Stefán. „Markmið hans er að veikja samtök launafólks, grafa undan samtakamætti verkalýðshreyfingarinnar. Til að fegra þessa aðför að hagsmunum launafólks segja Sjálfstæðismenn að þetta sé gert í nafni „frelsis“. En það er hið mesta öfugmæli.“
„Ef einhverjir Sjálfstæðismenn halda að þetta muni leiða til einhvers góðs fyrir aðra en þá allra ríkustu í samfélaginu þá ættu þeir að hugsa sig um aftur,“ segir Stefán í greininni. „Ef þetta næði fram að ganga þá væri grundvelli kippt undan vinnumarkaðsskipaninni og þeim samskiptum og samstarfi sem hún hefur auðveldað. Félagsskipan öll færi á hreyfingu og friðarskyldan á vinnumarkaði yrði í uppnámi.“
Lesa má grein Stefáns hér: Sjálfstæðisflokkurinn er kominn út úr skápnum.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga