„Staðreyndin er sú að Agnieszka Ewa eða Ólöf Helga höfðu aldrei samband við mig til að afla upplýsinga eða gagna um eitt eða neitt. Þær höfðu aldrei samband til að fá ráðgjöf eða upplýsingar varðandi mál sem voru í gangi á vettvangi félagsins. Ekki í eitt einasta skipti“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook í framhaldi af tölupóstsmálinu.
Sólevig segir ástæðuna fyrir því að þær Ólöf Helga Adolfsdóttir, starfandi varaformaður, og Agnieszka Ewa Ziólkowska, starfandi formaður, opnuðu pósthólfið hafi ekki verið að þær þurftu á upplýsingum að halda.
„Agnieszka Ewa og Ólöf Helga brutust inn í pósthólfið solveiganna@efling.is til að stunda njósnir í pólitískum tilgangi,“ segir Sólveig Anna. „Það eru fleiri leikendur í þessu viðbjóðslega máli en þær og ábyrgð þeirra er mikil. En ábyrgð, og skömm, þessara tveggja kvenna er auðvitað mest. Þær lögðust eins lágt og hægt er að hugsa sér. Þær beittu aðferðum í pólitískum framaleikjum sínum sem að engin manneskja með lágmarks siðferðiskennd myndi nokkru sinni nota. Þær grömsuðu og rótuðu, lásu og prentuðu, ekki í einn eða tvo daga, heldur í 4 mánuði. Ekki af neinni annari ástæðu en til að reyna að finna eitthvað sem að þær gætu notað gegn mér í pólitískum tilgangi.“
Sólveig Anna segir að þær Agnieszka Ewa og Ólöf Helga hafi sýnt að þær svífast bókstaflega einskis. Þær hafa með framferði sínu orðið sjálfum sér til ævarandi skammar.
„Það hátt setta og málsmetandi fólk innan og utan Alþýðusambandsins sem styður framboð Ólafar Helgu hefur með þeim stuðningi orðið sjálfu sér til ævarandi skammar,“ skrifar Sólveig Anna. „Ég myndi segja að þau hefðu náð botninum, en því miður held ég að svo sé ekki. Í vissum kreðsum virðist botninn hvergi vera sýnilegur.“
Sólveig Anna segir að enn á ný sjáum við að orð Styrmis Gunnarssonar, mannsins sem sjálfur njósnaði um pólitíska andstæðinga fyrir Morgunblaðið, Sjálfstæðisflokkinn og sendiráð Bandaríkjanna, eru hinn mikli sannleikur um þjóðfélagið okkar.
„Það er ömurlegt að þurfa að horfast í augu við það,“ skrifar Sólveig Anna. „Ég vona að við komust einhvern tímann undan þessari bölvun. Við getum varla þolað lengur að svona sé fyrir okkur komið: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Lesa má innlegg Sólveigar Önnu á Facebook hér: Hér má sjá mynd af skjali …
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga