Væri mál Erlu tekið upp aftur og hún sýknuð er óhjákvæmilegt annað en að sá sýknudómur næði líka til Sævars og Kristjáns, en þau voru öll þrjú ákærð og sakfelld fyrir þessar röngu sakargiftir. Í slíkum dómi fælist sem sagt viðurkenning á því að það hafi verið lögreglumennirnir sem áttu frumkvæðið og fengu þessa tvítugu krakka í lið með sér í þeim göfuga tilgangi að geta handtekið banamenn Geirfinns,“ skrifar Jón Daníelsson blaðamaður í grein í Kjarnanum, en hann gaf á sínum tíma út bók um Geirfinnsmálið.
„Í slíkum dómi fælist viðurkenning á því að rannsakendur málsins hafi beitt ótrúlega óvönduðum meðölum og jafnvel gerst brotlegir við lög. Jafnvel þótt slíkar sakir séu löngu fyrndar virðist svo dökkur blettur ekki mega falla á lögregluna,“ heldur Jón áfram.
Hann rekur í greininni hvernig Erla Bolladóttir, Sævar Ciesielski og Kristján Viðar Viðarsson voru leidd af lögreglunni til að bera sök á fjórmenninga, sem síðan voru handteknir og haldið lengi saklausum í gæsluvarðhaldi.
„Þessar yfirheyrslur eru sennilega allra skýrasta vísbendingin sem höfum nú um frumkvæði og tilgang lögreglunnar. Til þess að geta handtekið Sigurbjörn þurfti lögreglan nauðsynlega að fá fram vitnisburði um að hann hefði verið í dráttarbrautinni,“ skrifar Jón.
Og heldur áfram: „Lögreglan þurfti líka á vitnisburðum að halda til að handtaka Magnús Leopoldsson. Gæsluvarðhald Einars Bollasonar og Valdimars Olsen virðast einna helst hafa verið einhvers konar fórnarkostnaður í samhenginu. En lögreglan fékk fram vitnisburði, sem hún taldi duga til að handtaka alla þessa menn. Þremenningarnir sem unnu að þessari rannsókn höfðu auðvitað góða reynslu af því að fá menn til að kikna undan einangrun í gæsluvarðhaldi og þeir virðast í upphafi hafa reiknað með að Sigurbjörn og Magnús myndu á endanum gefast upp og játa,“ skrifar Jón.
Jón segir það einmitt vera frumkvæðið sem málið snýst um. Það séu bara tveir möguleikar: Annað hvort átti unga fólkið sjálft frumkvæðið að þessum röngu sakargiftum eða frumkvæðið kom frá lögreglumönnunum. Það koma engir aðrir til greina. Og það er auðvitað hér sem hnífurinn stendur í kúnni.
Grein Jóns má lesa hér: Ósvífinn endurupptökudómur.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga