„Samskipti Guðnýjar við Bríet leigufélag sýnir að leigjendur þurfa umboðsmann, opinberan stuðning í samskiptum sínum við leigusala,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, í tilefni af frétt Samstöðvarinnar af tilraunum Guðnýjar Benediktsdóttur, fátækrar konu í Njarðvík, að fá húsleigu sína lækkaða. Húsleigu sem augljóslega er of há.
Guðmundur Hrafn segir að svör starfsfólks Bríetar afhjúpi viðmótið sem leigusalar sýni leigjendum. „Það er talað niður til leigjenda, eins og þeir séu ómálga börn,“ segir Guðmundur. „Það er eins og erindi leigjenda nái ekki í gegn, leigusalar líti á allt sem þeir segja sem bögg, nöldur og tuð.“
Guðmundur bendir á að eftir Hrun hafi embætti umboðsmanns skuldara verið stofnað til að styðja skuldara í ójafnri baráttu þeirra við lánastofnanir. Það var hugmyndin, þótt margir skuldarar sem fóru í gegnum meðferð umboðsmannsins hafi upplifað sem hann væri að ganga erinda lánardrottnanna. En hugmyndin var að styrkja fólk í viðkvæmri stöðu gagnvart ægivaldi þeirra sem hafa fjárhagslega framtíð fólks í hendi sér.
„Og sú er einmitt staða leigjenda,“ segir Guðmundur. „Leigjendur þora hvorki að æmta né skræmta af ótta við að missa heimili sitt og enda á götunni. Og þegar kannanir um erfiða fjárhagsstöðu heimila eru skoðaðar kemur í ljós að leigjendur er sá hópur sem stendur verst. Þeir hafa erft stöðu skuldaranna eftir Hrun. Og því miður er það svo að í mörgum tilfellum er þetta sama fólkið. Það missti allt sitt til lánastofnana eftir Hrun og gat ekki varið sig. Nú er það undir hælnum á leigusölum og getur heldur ekki varið sig.“
Eitthvað stórkostlegt að hjá Bríeti
Guðmundur Hrafn segir að Samtökum leigjenda hafi brotist margar kvartanir vegna hárrar leigu hjá Bríeti, sem segist þó vera óhagnaðardrifið leigufélag.
Guðmundur tekur tvö dæmi frá í sumar. Á Akureyri var Bríet með 71,5 fm, 3ja herbergja íbúð til leigu á 195 þús. kr. Samkvæmt leigusjá Þjóðskrár var meðal húsaleiga fyrir 70-80 fm, 3ja herbergja nýlegar íbúðir á Akureyri tæpar 162 þús. kr. Munurinn er 33 þús. kr.
Í Borgarnesi leigði Bríet út 91,3 fm, 3ja herbergja íbúð fyrir 200 þús. kr. Samkvæmt. Þjóðskrá er meðal húsaleiga fyrir 90-100 fm, 3ja herbergja nýlegar íbúðir í Borgarnesi 165 þús. kr. Munurinn er 35 þús. kr.
„Hvernig stendur á að óhagnaðardrifið leigufélag er langt yfir markaðsverði á húsaleigu?“ spyr Guðmundur. „Markaðurinn er sannanlega hagnaðardrifinn. Þar eru allskyns braskarar að reyna að auðgast á fólki í miklum húsnæðisvanda. Markaðurinn er stjórnlaus okurmarkaður þar sem leigusalar stjórna verðinu og þrýsta því upp. Svo kemur óhagnaðardrifið leigufélag í eigu ríkisins og svífur langt yfir markaði braskaranna. Það er eitthvað stórkostlegt að hjá Bríeti.“
Guðmundur bendir á að í Danmörku séu óhagnaðardrifin leigufélög með um 30% lægra verð en tíðkast á almennum markaði. Bríet ætti því að leigja íbúðina á Akureyri á 125 þús. kr. en ekki 195 þús. kr. Og íbúðina í Borgarnesi á 127 þús. kr. en ekki 200 þús. kr.
Og leigan á íbúðinni sem Guðný Benediktsdóttir leigir í Njarðvík ætti að vera um 169 þús. kr. en ekki 248 þús. kr. sé miðað við danska markaðinn.
„Það þarf opinbera rannsókn á Bríeti, draga fram hvernig þetta leigufélag ríkisins er rekið með öllum þessum kostnaði og hvernig stendur á því að það rukkar fólki um húsaleigu sem er hærri en á hinum almenna villta markaði. Höfum í huga að þetta er gert í okkar umboði. Við eigum Bríeti í gegnum ríkissjóð,“ segir Guðmundur Hrafn Arngrímsson.
Hér má lesa frásögn af máli Guðnýjar og Bríetar: Segist vera óhagnaðardrifið en er illa rekið okurfyrirtæki
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga