Samkvæmt Hagstofunni voru 1.032 rými á sjúkrahúsum landsins í árslok 2020. Ef rýmin væru jafnmörg og var 2007 miðað við fjölgun landsmanna ættu þau að vera 1.519. Mismunurinn er 487 rými. Það vantar að fjölga rýmum á sjúkrahúsum um 47 prósent til að ná sömu stöðu og var fyrir Hrun.
Hlutfallslega mestur samdráttur hefur orðið í geðrýmum. Fyrir Hrun voru hér 60,7 geðrými á hverja hundrað þúsund íbúa. Í árslok 2020 var þetta hlutfall komið niður í 35,5. Árið 2020 voru hér 129 geðrými en þau þyrftu að vera 219 til að ná hlutfallinu frá 2007. Það vantar 90 geðrými. Til að ná því þyrfti að fjölga geðrýmum um 69%.
Á þessu stöplariti má sjá stöðuna, skipt eftir tegundum rýma:
Það vantar flest sjúkrarými. Miðað við stöðuna 2007 ættu hér að vera 1.235 sjúkrarými, en þau eru aðeins 844. Það vantar 391 rúm. Til að ná því þyrfti að fjölga sjúkrarýmum um 46%.
Staðan er svipuð þegar kemur að endurhæfingarrýmum. Miðað við stöðuna 2007, sem enginn hélt fram að væri góð, ættu hér að vera 92 endurhæfingarrými en þau eru 64. Það vantar 28 rými, sem merkir að 28 manns sem ættu að liggja inn á endurhæfingardeild eru heima á biðlista.
Og sömu sögu er að segja af hjúkrunarrýmum. Þau ættu að vera 192, ef hlutfallið væri það sama og fyrir Hrun, en þau eru aðeins 124. Það vantar 68 hjúkrunarrými til að ná stöðunni 2007, sem ekki var góð. Það vantar 54% fleiri rými. Og frá 2007 öldruðum fjölgað hlutfallslega, svo það er í raun þörf fyrir fleiri rými.
Það er ekki langur tími liðinn frá 2007. Aðeins fimmtán ár. En hrörnun heilbrigðiskerfisins hefur verið hröð, segja má að stjórnvöld hafi rekið markvissa stefnu til að brjóta það niður.
Til hvers?
„Stjórnvöld hafa veikt tekjustofnana og svelt innviðina eins og blasir við þjóðinni í heilbrigðiskerfinu. Það er gert til að koma því í hendur einkaaðila,“ segði Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis á kjaramálaráðstefnu félagsins í gær.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga