„Forsætisráðherrann var neydd til að hætta við skattalækkanir fyrir ríkasta 1 prósentið – en skaðinn er skeður, heimilin eru að lenda í verðbólgu og vaxtahækkunum“ sagði Rachel Reeves, þingmaður Verkamannaflokksins. Þingmenn verkamannaflokksins segja að fjárhagsáætlanir Truss séu rúnar trausti og að það þurfi að ganga lengra með breytingar.
Íhaldsflokkurinn í Bretlandi hefur fallið frá áformum um skattalækkanir fyrir hina allra ríkustu sem fólust í því að fjarlægja efsta skattþrepið á tekjur einstaklinga.
Kwasi Kwartengi fjármálaráðherra tekur fyrir að hann þurfi að biðjast afsökunar eða segja af sér. Skattalækkanirnar sé liður sem megi missa sín og hafi valdið of miklu fjaðrafoki í umræðunni. Kwasi bendir á að ytri þættir á fjármálamörkuðum heims hafi ekki síður haft áhrif á efnahagsaðstæður sem breyttust skjótt í kjölfar hins svokallaða „mini-budget“ eða smáfjárlága sem kynnt voru fyrir tíu dögum síðan.
Steve Double, flokksbróðir þeirra Liz Truss og Kwasi, fagnar ákvörðun morgunsins og segir að þessi skattalækkun hefði aldrei notið meirihlutastuðnings og komist í gegnum þingið. Margir innan raða íhaldsflokksins hafa gagnrýnt efnahagsáform Truss.
Kwasi og Truss standa enn við önnur áform, meðal annars þak á orkukostnaði heimila og innviðafjárfestingar. Enn á að standa við ríflegri heimildir fyrir bónusa starfsfólks í fjármálageira og aðrar breytingar sem markaðsfrjálshyggjufólk aðhyllist. Talið er víst að án frekari breytinga muni áfram blasa við stórt fjárlagagat og í kjölfarið niðurskurður á grunnþjónustu í Bretlandi, þ.á.m. á heilbrigðisþjónustu.
Martin Wolf kallar áformin töfralyf og gagnrýnir harðlega hugmyndafræði íhaldsflokksins. „Íhaldsflokkurinn hefur verið tekinn yfir af ofstækisfólki sem er skeytingarlaust um veruleika venjulegs fólk, laust við hógværð og velsæmi“ segir hann í pistli sem hefur verið dreift víða.
Markaðir hafa brugðist vel við það sem af er degi. Pundið hefur hækkað um hálft prósent en nálgast sinn fyrri styrk fyrir tíu dögum síðan – en álag ríkisskuldabréfa á enn langt í land. Bent hefur verið á að skattstofninn sem um ræðir fyrir efsta skattþrepið sem er í 45 prósentum fyrir tekjur yfir 150 þúsund pund af árlegum tekjum er ekki nema 2-3 milljarðar punda – skattalækkunin hafi sterkt hugmyndafræðilegt gildi en ekki mikil áhrif á fjárlagagatið. Þar vegur þakið á orkukostnað þungt.
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga