„Ótækt er að skylda launamenn til aðildar að félagi með yfirlýsta pólitíska stefnu og sýn sem samræmist ekki skoðunum þess,“ segir í greinagerð þingflokks Sjálfstæðisflokksins með frumvarpi um afnám skylduaðildar að verkalýðsfélögum.
Flutningsmenn eru allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins að ráðherrunum undanskildum. Meginatriði frumvarpsins er að: „Launamenn og vinnuveitendur skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög sem þeir kjósa og eru einungis háðir reglum hlutaðeigandi félags um inngöngu í það. Óheimilt er að draga félagsgjald af launamanni eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans. Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag.“
„Núverandi vinnumarkaðslöggjöf er úrelt og þrengir um margt að félagafrelsi. Varla er unnt að líta svo á að launamenn hafi raunverulegt frelsi til að ákveða félagsaðild sína sjálfir. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt að standa utan stéttarfélags hefur lagaumgjörðin verið með þeim hætti að valfrelsið er í orði en ekki á borði,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Og síðar segir Sjálfstæðisflokksfólkið: „Á Íslandi eru svokölluð forgangsréttarákvæði í kjarasamningum. Slík ákvæði ganga gegn félagafrelsi launamanna enda má leggja þau að jöfnu við skylduaðild að stéttarfélagi, þar sem fólk er í raun og veru útilokað frá tilteknum störfum gangi það ekki í stéttarfélagið sem hefur forgang samkvæmt kjarasamningi. Nánast öll vestræn lönd hafa bannað slík ákvæði með vísan til félagafrelsis launamanna. “
Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Þú getur skráð þig hér: Skráning félaga