139 þús. kr. hækkun ári á fjölskyldu á Seltjarnarnesi en 50 þús. kr. lækkun í Fjarðabyggð

Börn 25. nóv 2022

Mikill munur er á breytingum á gjöldum fyrir þjónustu við börn milli sveitarfélaga á tímabilinu frá því að lífskjarasamningarnir tóku gildi til dagsins í dag. Verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman breytingar á leikskólagjöldum, skóladagvistunargjöldum og skólamat frá 2019 – 2022 hjá 15 stærstu sveitarfélögum landsins.

Samantektin sýnir að gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækkuðu mest á tímabilinu hjá Borgarbyggð, um 20,2% eða 5.985 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, um 19,9% eða 4.914 kr. á mánuði. Leikskólagjöld hækkuðu mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 24,2% eða 6.590 kr. á mánuði en lækkuðu mest hjá Mosfellsbæ, um 10,6% eða 3.428 kr. á mánuði.

Ef samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir börn hjá vísitölufjölskyldu eru skoðuð, þ.e. gjöld hjá fjölskyldu með eitt barn á grunnskólaaldri í skóladagvistun og skólamat og eitt barn í leikskóla, má sjá að þau hafa hækkað mest hjá Seltjarnarnesbæ, um 21,6% eða 139.117 kr. á ári. Hjá Fjarðabyggð hafa sömu gjöld hins vegar lækkað um 8,5% eða 50.903 kr. á ári.

Gjöld fyrir skóladagvistun og skólamat hækka mest í Borgarbyggð en lækka mest í Fjarðabyggð

Samanlögð gjöld fyrir þjónustu fyrir barn á grunnskólaaldri, skóladagvistun með síðdegishressingu og skólamat, hækkuðu í 13 sveitarfélögum af 15 frá 2019-2022, um 0,2-20,2%. Hlutfallslega hækkuðu heildargjöld mest hjá Borgarbyggð, 20,2% eða um 5.985 kr. á mánuði. Það gerir 53.865 kr. á ári m.v. 9 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Seltjarnarnesbæ, 19,3% eða 7.403 kr. á mánuði sem er mesta hækkun í krónum talið, 66.627 kr. á ári. Gjöldin lækkuðu mest hjá Fjarðabyggð, 19,9% eða um 4.914 kr. á mánuði sem gerir 44.226 kr. á ári.

Leikskólagjöld hækka mest hjá Seltjarnarnesbæ en lækka mest hjá Mosfellsbæ
Almenn leikskólagjöld (8 tímar með fæði) hækkuðu í flestum sveitarfélögum eða í 12 af 15. Mest hækkuðu almenn leikskólagjöld hjá Seltjarnarnesbæ, um 24,2%. Hækkunin nemur 6.590 kr. á mánuði eða 72.490 kr. á ári miðað við 11 mánaða vistun. Næst mest hækkuðu gjöldin hjá Akraneskaupstað og Ísafjarðarbæ, um 11% hjá hvoru sveitarfélagi fyrir sig.

Gjöldin lækkuðu hjá tveimur sveitarfélögum, mest hjá Mosfellsbæ um 10,6% eða 3.428 kr. á mánuði. Næst mest lækkuðu gjöldin hjá Fjarðabyggð um 1,8% eða 6.677 kr. á mánuði en gjöldin stóðu í stað á tímabilinu hjá Vestmannaeyjabæ.

Aukinn kostnaður vísutölufjölskyldu með einu barni í leikskóla og einu í grunnskóla
Frá árinu 2019 hefur samanlagður kostnaður vísitölufjölskyldunnar vegna þjónustu fyrir börn, þ.e. kostnaður foreldra með eitt barn í leikskóla og eitt í grunnskóla hækkað mest hjá Seltjarnarnesbæ um 21,6% eða 139.117 kr. á ári sé miðað við 11 mánaða vistun á leikskóla og 9 mánuði í skóladagvistun og skólamat. Næst mest hafa gjöldin hækkað hjá Borgarbyggð, um 12,6% eða 85.006 á ári. Þar á eftir kemur Akraneskaupstaður með 11,8% hækkun eða 82.618 kr. á ári.

Ef litið er til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu má sjá að gjöldin hafa hækkað um 9,8% hjá Kópavogsbæ eða sem nemur 64.653 kr. á ári. Hjá Reykjavíkurborg hafa samanlögð gjöld f. leikskóla, skóladagvistun og skólamat hækkað um 9,3% eða 49.573 kr. á ári og hjá Garðabæ nemur hækkunin 8,9% eða 68.908 kr. á ári.

Mesta lækkun á tímabilinu hefur orðið hjá Fjarðabyggð þar sem kostnaðurinn hefur minnkað um 8,5% eða 50.903 kr. á ári. Næst mest hafa gjöldin lækkað hjá Mosfellsbæ um 5,0% eða 32.794 kr. á ári.

Fréttin er af vef ASÍ: 139 þúsund króna hækkun á ári hjá vísitölufjölskyldu á Seltjarnarnesi en 50 þúsund króna lækkun í Fjarðabyggð.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí