Allt of fá úrræði fyrir börn – „Börn þurfa aðgerðir ekki orð.“

Framkvæmdastjóri Barnaheilla, Tótla Sæmundsdóttir, var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. Hún var spurð út í fréttir þess efnis að mikillar aukningar mætti gæta í tilkynningum til barnaverndarþjónustu. Aukningin tilkynninga var um 16,7% á milli ára, en ákveðnir flokkar tilkynninga jukust meira en aðrir, svo sem áhættuhegðun barna og vímuefnanotkun.

Samstöðin fjallaði um málið í gær, en í fréttaflutningi kom fram að forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, Ólöf Ásta Farestveit, hefur miklar áhyggjur af þróuninni. Hún sagði aukninguna mögulega vera afleiðing af samkomutakmörkunum á tímum Covid, þó hún tók sérstaklega fram að engar rannsóknir væru til þess að styðja við þá hugmynd, heldur væri það einungis tilgáta.

Tótla Sæmundsdóttir, í viðtali við Stöð 2, tók þó undir með Ólöfu og ýjaði að því að áhrif Covid tímans væru að baki þessari þróun. Hún sagði þá ennfremur að ábyrgð og aðgerðaleysi stjórnvalda væri mikið.

„Ég hvet stjórnvöld sérstaklega til að skoða fíknivandann. Eins og við sáum í skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrr á árinu þar sem var sérstaklega verið að fjalla um ópíóðafíkn og almennan fíkniefnavanda, þá skortir úrræði. Það skortir bráðaþjónustu. Það er enginn að taka þennan málaflokk í sínar hendur, við þurfum skýra forystu og við þurfum úrlausnir fyrir þennan hóp,“ sagði Tótla.

„Það eru allt of fá úrræði. Börn þurfa samþættari þjónustu. Börn þurfa aðgerðir ekki orð. Við erum alltaf að tala um þessa snemmtæku íhlutun, við þurfum að grípa þennan hóp fyrir fullorðinsárin.“

Réttilega beinir Tótla skotspónum að yfirvöldum, enda ljóst að ef úrræði skortir þá er ábyrgðin þeirra. Þá er það sannarlega grafalvarlegt ef yfirvöld eru ekki tilbúin til að taka á slíkri aukningu tilkynninga þar sem ef illa er staðið að stuðningi og aðstoð þá getur það markað líf þeirra barna sem um ræðir.

Samstöðin hefur áður fjallað um aðgerðapakka dómsmálaráðherra og barnamálaráðherra, en þau tilkynntu nýlega mörg hundruð milljóna króna aðgerðir til að stemma stigu við aukinni tíðni alvarlegs ofbeldis meðal ungmenna. Vandinn við þann aðgerðapakka er að hann var að mestu innantómur og almennt orðaður, skemmst ber að minnast einnar aðgerðanna 14, sem snerist um aðgerð til að samhæfa aðgerðir. Það sem vantaði algerlega í þann aðgerðapakka var nokkurs konar umræða um fátækt og áhrif hennar á líf og sálartetur barna og foreldra þeirra.

Samstöðin fjallaði rækilega um það í gær í tengslum við þetta mál, að áhrif Covid eru vafalaust þáttur og undirrannsakaður ef eitthvað er. Hins vegar vantar algerlega í umræðuna að ræða fátækt. Forstjóri Barna- og fjölskyldustofu nefndi það ekki á nafn og framkvæmdastjóri Barnaheilla gerði það ekki heldur. Né nein frétt eða blaðamaður sem um málið fjallar.

Á þessum tíma sem verið er að ræða, frá 2021 til dagsins í dag, hefur gríðarlega alvarleg húsnæðiskreppa snarversnað. Lífskjarakrísa í ofurverðbólgu og gríðarháum stýrivöxtum hefur einnig leikið margar fjölskyldur afar grátt. Almenningur í landinu stendur í daglegu harki og þeir sem bjuggu við fátækt fyrir búa við enn sárari fátækt í dag. Þá hefur fjöldi fátækra einfaldlega aukist.

Fólk í fátækt er miklu líklegra til að vera leigjendur og helsið á leigumarkaði er grafalvarlegt. Leigjendasamtökin hafa þannig bent reglulega á að börn leigjenda búa við mun lakari kjör en börn húseigenda. Með auknu rótleysi og húsnæðisóöryggi koma gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir andlega heilsu þeirra og félagslegt líf. Börn leigjenda búa við þá stöðu að flytja að meðaltali á rúmlega ársfresti, oft á tíðum í glæný hverfi, slíta öllum samböndum við vini og nærsamfélagið á reglulegum grundvelli og upplifa mikla vansæld fyrir vikið. Foreldrarnir eru sömuleiðis undir mikilli streitu og með samverkandi áhrifum koma oft fram félagsleg og andleg vandamál hjá þeim líka, sem sannarlega hafa áhrif á börn.

Það er því með öllu ótækt að umræða um aukin andleg og félagsleg vandamál barna og ungmenna fari fram á helstu ljósvakamiðlum, án þess að nokkurn tímann sé minnst á gríðarlega eyðileggjandi áhrifavald, sem er fátækt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí