Barna- og fjölskyldustofa segir frá mikilli aukningu í tilkynningum til barnaverndunarþjónustu á fyrstu þremur mánuðum ársins, samanborið við síðustu ár. Tilkynningum fjölgaði um 16,7% miðað við sama tímabil á síðasta ári og mest fjölgaði þeim í Reykjavík eða um rúm 20%. RÚV sagði frá niðurstöðunum.
Stærstur hluti tilkynninganna er vegna vanrækslu líkt og á undanförnum árum, eða rúm 40%. Mikil aukning hefur þó orðið í flokkum eins og áhættuhegðun barna sem næst stærsti flokkurinn með um þriðjungshlutfall tilkynninga. Þá hefur tilkynningum um líkamlegt eða andlegt ofbeldi gagnvart börnum og tilkynningum vegna neyslu barna á vímuefnum fjölgað gríðarlega, en því síðastnefnda hefur fjölgað um 118,9% á milli ára.
Í umfjöllun RÚV er vísað í umfjöllun Morgunblaðsins, en blaðið ræddi við Ólöfu Ástu Farestveit, forstjóra Barna- og fjölskyldustofu. Hún segir stofnunina hafa „gríðarlegar áhyggjur“ af áhrifum samkomutakmarkanna á tímum Covid, þar sem „börn yrðu einangruð heima þar sem ofbeldi og drykkja innan heimila jókst“. Hún segir að börn á mótunaraldri gætu nú verið að eiga við aukna reiði og vanlíðan vegna áhrifa samkomutakmarkanna, sem gæti meðal annars verið að leiða til aukinnar tíðni alvarlegrar ofbeldishegðunar meðal barna. Hún tók þó skýrt fram í viðtalinu að engar rannsóknir styðji enn þá hugmynd með gögnum, heldur að þetta sé „umræða meðal margra og nokkuð sem þurfi að skoða frekar“.
Nú skal sannarlega ekki dregið úr því að áhrif samkomutakmarkanna og ýmisleg önnur áhrif af völdum faraldursins og viðbragða við faraldrinum höfðu vafalaust mikil áhrif á sálartetur landsmanna. Sóttvarnaraðgerðir og langvarandi stress og kvíði tóku sinn toll af okkur öllum. Þannig má vel ímynda sér að sálfræðileg áhrif þess tímabils munu vara til langstíma og þá fyrir fullorðna jafnt og börn, þó eflaust voru börn viðkvæmari fyrir slíku samfélagslegu róti allra jafna. Það er því fullkomlega gild umræða og vel þess virði að hvetja til rannsókna á henni.
Önnur umræða kemur þó ekki fram í umfjöllun Morgunblaðs, RÚV né niðurstöðum Barna- og fjölskyldustofu. Umræða sem kom heldur ekki fram í aðgerðapakka dómsmálaráðherra og barnamálaráðherra gegn aukningu á alvarlegu ofbeldi meðal ungmenna.
Sú umræða var rædd hér á Samstöðinni í tengslum við þann aðgerðapakka, sem var vægast sagt fullur af almennt orðuðum og innihaldslausum aðgerðatillögum.
Umræðan er fátækt. Það þarf ekki að fara með langt mál um þá vel þekktu staðreynd að aukning fátæktar í samfélagi hefur mikil áhrif á margt í samfélaginu. Glæpatíðni eykst, andleg og líkamleg heilsa fólks í fátækt eykst og vanlíðan og félagsleg vandamál eins og ofbeldi og vanræksla stóraukast. Ekki síst og jafnvel hvað mest hjá börnum fólks í fátækt.
Fátækt er eilífðarböl af þeim ástæðum að ömurleikinn sem hún bakar fólkinu sem upplifir hana hvað sárast er ómælanlega skaðlegur. Þá smitar sá skaði samfélagið, þar sem fólk, trámatíserað af völdum fátæktar, festist oft í örvæntingafullri stöðu með tilheyrandi afleiðingum fyrir þau sjálf og samfélagið í kring. Það er því hagsmunamál samfélagsins alls að uppræta fátækt.
Hvernig sú umræða tengist aukningu í tilkynningum til barnaverndar sem hér er um að ræða, er sú staðreynd að á þessum tíma sem hefur liðið frá tímum Covid-faraldursins hefur lífsskilyrðum á Íslandi hrakað verulega fyrir fólk í fátækt og fátækt almennt aukist líka. Húsnæðiskreppan spilar þar hvað skæðast hlutverk, enda hefur húsnæðiskostnaður aukist gríðarlega á undanförnum árum, fyrst og fremst fyrir leigjendur en núna undanfarið í stýrivaxtamaníu og verðbólgutíð fyrir íbúðaeigendur líka.
Það gefur auga leið að fólk í fátækt er mun líklegra til að vera leigjendur, þar sem þau hafa ekki efni á því að safna sér fyrir útborgun á fasteign. Leigumarkaðurinn hefur leikið leigjendur gríðarlega grátt, enda hafa leiguverð á Íslandi hreinlega stökkbreyst undanfarinn áratug. 130% hækkun á leiguverðum yfirsíðastliðinn áratug, samanborið við 35% hækkun í Bandaríkjunum og um 19% hækkun að meðaltali í Evrópusambandinu.
Samhliða Covid-faraldrinum hófst líka mikil kjaraskerðing, enda jókst verðbólgan mikið á þeim tíma í kostnaði nauðsynjavara, þar sem fyrirtæki eins og matvöruverslanir hækkuðu títt vöruverð í skjóli þess að vísa í alþjóðlegan vöruskort og hækkanir á verðum frá birgjum. Þau fyrirtæki skiluðu þau miklum hagnaði á sama tíma og því má velta fyrir sér hvað var verðbólga og hvað græðgisbólga. Engu að síður hefur sú þróun bara versnað enda geisar nú grafalvarleg lífskjarakrísa. Á sama tíma stökkbreytast leiguverð áfram og hefur sú þróun orðið örari, ekki hægari. Samstöðin hefur þannig sagt frá því að núna tvo mánuði í röð hafa leiguverð hækkað fimmfalt á við um verðbólguna.
Samstöðin hefur líka fjallað um sláandi tölur Landlæknis um mikla aukningu í óhamingju og vansæld ungs fólks á Íslandi, en þar kom í ljós að aukin fátækt og aukið tækifærisleysi yngri kynslóða hefur í för með sér aukna vansæld og síðri andlegri heilsu.
Það skal því engan undra að stórskaðleg fátæktaraukning hafi í för með sér hryllilegar afleiðingar fyrir börn og foreldra sem lifa við fátækt. Þeirri umræðu má svo sannarlega velta fyrir sér og taka alvarlega, ekki síður en áhrifum samkomutakmarkanna, sem er einnig þarft rannsóknarefni, enda var það gríðarlega erfiður tími fyrir samfélagið.