Umræða undanfarið um aukna tíðni alvarlegri ofbeldisglæpa ungmenna, sér í lagi meðal drengja í annarlegri hópamyndun þeirra, varð til þess að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar gripu tækifærið til fjölmiðlafunds.
Efniviður fundarins var að stæra sig af heilum fjórtán aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna, tilkynntar af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra og Guðrúnu Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra. Aðgerðirnar fjórtán eru þó líklega einhvers konar afrek í almennu orðalagi og furðulegheitum.
Sumar aðgerðirnar gætu vissulega hjálpað, en eins og svo oft áður má spyrja sig hvers vegna þær séu fyrst tilkynntar núna. Aðgerðir eins og númer tvö á listanum, að „styðja við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu vegna biðlista“.
Ef biðlistar eru á þeim úrræðum þá er það væntanlega sök sitjandi yfirvalda, sem hafa ekki stutt nægjanlega við umrædda stofnun. Ef stuðningur við Barna- og fjölskyldustofu er til þess fallinn að minnka ofbeldi meðal barna, þá hefur skortur á stuðningi hingað til væntanlega verið það sem stuðlaði að frekara ofbeldi meðal barna.
Annað dæmi um tilkynnta aðgerð sem furða má sig af hverju slíkt sé ekki til staðar nú þegar er sú þriðja: „Koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi“.
Aðrar aðgerðir sem tilkynntar voru eru greinilega þess eins ætlaðar að fita til aðgerðalistann svo viðbrögð stjórnvalda liti betur út.
Eitt dæmi um það er aðgerð númer 13: „Hefja alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag“.
Ekki er ljóst hvernig sjálfbærni samfélagsins (sjálfbærni um hvað? Umhverfismál?) kemur ofbeldi meðal ungmenna við, en að mati barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra er það lykilaðgerð í þeim efnum.
Ennþá kostulegri er aðgerð númer 14: „Samhæfa aðgerðir og móta stefnu til framtíðar“.
Sparðatíningurinn er alger þegar ein aðgerðanna er að „samhæfa aðgerðir“. Að „móta stefnu til framtíðar“ er svo atriði sem flokkast getur ekki sem aðgerð heldur, enda fremur borðliggjandi mál að svo beri að gera. Liggur eiginlega í eðli málsins að stjórnvöld móti stefnu til framtíðar, það er jú heila verkefnið sem þeim er úthlutað til að byrja með.
Það sem er einna athyglisverðast er fíllinn í herberginu sem aðgerðapakki ráðherranna tveggja skautaði algerlega fram hjá. Aukin fátækt í samfélaginu og þá sér í lagi aukin fátækt barna.
Með heilbrigðri skynsemi að vopni að viðbættum endalausum fjölda rannsókna á mörgum sviðum má auðveldlega skilja það hvernig aukin fátækt stuðli að auknu ofbeldi, aukinni tíðni glæpa og aukinni andfélagslegri hegðun. Börn sem alin eru upp við fátækt búa gjarnan við síðri andlegri heilsu, skert tækifæri til þátttöku í samfélaginu og ýmis konar skerðingar og skort sem hefur margvísleg áhrif á þeirra líf. Meðal annars þau að leiðast frekar út í glæpi eða ofbeldi.
Fátækrahverfi eru gjarnan þau hverfi sem hafa hæstu glæpatíðnina í erlendu samhengi. Ekki vegna þess að fólk í fátækt sé í eðli sínu glæpahneigt, heldur af því að fátækt þjarmar að fólki og fækkar tækifærum og skerðir lífsgæði þannig að fólk leiðist frekar út í ýmis konar andfélagslega hegðun.
Þá vitum við líka að hið gríðarmikla öryggis- og rótleysi sem fylgir því að vera á íslenskum leigumarkaði, þar sem efnaminna fólk neyðist oftar til þess að dúsa, veldur gríðarmikilli vanlíðan meðal barna og þrengir mjög að efnahagi foreldra þeirra. Krísan sem er uppi á leigumarkaði hefur þannig beinar afleiðingar og áhrif á geðheilsu barna, félagsmótun og öryggi.
Þannig að ráðherrunum tveimur og þeirra tíma væri betur varið í að vinna gegn nýfrjálshyggjustefnu eigin ríkisstjórnar síðustu 7 árin og vinda ofan af henni ef markmiðið er virkilega það að vinna gegn auknu ofbeldi meðal barna.
Aðgerðalistinn er eftirfarandi:
- Auka þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna
- Styðja við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu vegna biðlista
- Koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi
- Endurskoða meðferð mála og úrræða fyrir sakhæf börn
- Efla samfélagslögreglu
- Innleiða svæðisbundið samráð um allt land
- Efla Landsteymi Miðstöðvar mennta- og skólaþjónustu sem styður við börn, foreldra og skóla.
- Setja á fót úrræði fyrir ungmenni 16-17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi (NEET)
- Efla ungmennastarf í Breiðholti
- Efla Flotann – flakkandi félagsmiðstöð
- Auka fræðslu og forvarnir
- Virkja foreldrastarf í umhverfi barna – SAMAN hópurinn
- Hefja alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag
- Samhæfa aðgerðir og móta stefnu til framtíðar