Það er dýrast að fá til sín heimsendann mat á Seltjarnarnesi, Reykjanesbæ og Garðabæ en ódýrast í Vestmannaeyjum, Reykjavík og Árborg. Munurinn og dýrasta og ódýrasta eru 745 krónur, það er 78% dýrara að fá matinn á Seltjarnarnesi en í Eyjum.
Flest sveitarfélög á landinu bjóða eldri borgurum heimsendann mat en slík þjónusta er lögboðin samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Það er mismunandi eftir sveitarfélögum hvernig framkvæmdinni er háttað, hvort maturinn sé framreiddur af eldhúsi sveitarfélaganna eða hvort þjónustunni sé útvistað. Stutt er síðan félagsþjónustan á Akureyri lenti í vanda þegar eldhúsið sem bærinn átti í viðskiptum við lagði starfsemi sína skyndilega niður.
Samkvæmt lögum um félagsþjónustu ber sveitarstjórnum að veita öldruðu og fötluðu fólki sem ekki getur annast matseld vegna skertar getu og eru metin með þjónustuþörf næringarríka og staðgóða máltíð daglega.
Vefsíðan „Aldur er bara tala” gerði könnun á dögunum á verði á heimsendum mat í 13 af stærstu sveitarfélögum í landinu og vakti með því athygli á þeim mikla verðmun sem er milli þeirra. Munurinn á verði matarskammtanna er 44 % á milli þess dýrasta og ódýrasta. Seltjarnarnes selur dýrasta skammtinn en Vestmannaeyjabær þann ódýrasta. Vestmannaeyjabær niðurgreiðir matinn fyrir sína skjólstæðinga en ekki Seltjarnarnesbær.
Í könnuninni voru hvorki metin gæði né magn skammtanna né hvort eftirréttur fylgdi aðalrétti eða hvort maturinn væri sendur heim heitur eða kaldur. Í sumum sveitarfélögum greiða notendur sundurliðaðan eða aðskilinn reikning en annars staðar eru maturinn og útkeyrslan sett í eina summu.
Seltjarnarnes: 1700 kr.
Reykjanesbær: 1611 kr.
Garðabær: 1600 kr.
Akureyri: 1424 kr.
Akranes: 1342 kr.
Kópavogur: 1330 kr.
Mosfellsbær: 1227 kr.
Fjarðabyggð: 1250 kr.
Hafnarfjörður: 1174 kr.
Múlaþing: 1167 kr.
Árborg: 1100 kr.
Reykjavík: 1055 kr.
Vestmannaeyjar: 955 kr.
Sólrún Erla Gunnarsdóttir félagsráðgjafi heldur úti vefsíðunni „Aldur er bara tala” en þar annast hún ráðgjöf og býður námskeiðahald en Sólrún hefur einbeitt sér að öldrunarmálum og stundar diplómanám á meistarastigi í öldrunarþjónustu.