Ávinningur tveggja kjarasamninga að brenna upp

Það er lítið eftir af þeim árangri sem náðist með lífskjarasamningunum til hækkunar lægstu launa. Verðbólgan étur upp verðgildi launanna og aukinn hagvöxtur án kjarabóta eyðir árangrinum af tekjujöfnun. Umtalsverða hækkun launa þarf til að endurheimta fyrri árangur áður en hægt er að semja um raunverulegar kjarabætur.

Til að skoða árangur tveggja síðustu samninga má stilla upp hvernig lágmarkslaun hafa haldið verðgildi sínu annars vegar og hvernig þau hefðu þróast ef þau hefðu hækkað í takt við landsframleiðslu á mann. Hið fyrra segir til um kaupmátt en það síðara um hvort lægstu laun halda í við framleiðsluaukningu í samfélaginu.

Grafið nær aftur til ársbyrjunar 2014 þegar lágmarkslaun hækkuðu í 214 þús. kr. sem eru tæplega 288 þús. kr. á núvirði. Bláa línan sýnir lágmarkslaunin frá 2014 en rauða línan lágmarkslaunin frá 2014 uppreiknuð miðað við verðlag og landsframleiðslu á mann. Það má því segja að rauða lína sé viðmiðunin um árangur verkalýðshreyfingarinnar umfram þann sem var til staðar í ársbyrjun 2014.

Sagan sem grafið sýnir er sú að næstu misserin frá upphafu 2014 hækkuðu lágmarkslaun í takt við landsframleiðsluna, launin hækkuðu og kaupmáttur jókst en hlutdeild þeirra í landsframleiðslu jókst ekki. Ekki tókst að auka hlut láglaunafólks af kökunni.

Með lífskjarasamningunum hækkuðu launin meira á föstu verðlagi, kannski fyrst og fremst vegna þess að verðbólgan lækkaði. Og launin hækkuðu líka miðað við framleiðsluna, fyrst vegna þess að um það var samið en þegar líða tók á samningstímann vegna þess að landsframleiðslan skrapp saman vegna cóvid.

Síðustu mánuði hefur framleiðslan aukist mikið og sömuleiðis verðbólgan. Og hvort tveggja étur upp árangurinn af lífskjarasamningunum.

Í janúar 2021 var kaupmáttur lægstu launa hæstur. Lágmarkslaun höfðu þá hækkað á föstu verðlagi um 38% fá ársbyrjun 2014. Og þá var líka toppurinn á lágmarkslaunum á föstu verðlagi að teknu tilliti til aukinnar landsframleiðslu. Í janúar 2021 voru lágmarkslaun tæplega 19% hærri en í ársbyrjun 2014 á þann mælikvarða, því miður fyrst og fremst vegna falls landsframleiðslunnar í cóvid.

Nú eru lágmarkslaun aðeins 4,7% hærri á föstu verðlagi en þau voru í janúar 2014. Og það stefnir í að þau verið aðeins 2,6% hærri í árslok. Svona hratt vinnur verðbólgan á kaupmætti launa.

Og sama þróun hefur átt sér stað varðandi lágmarkslaun miðuð við landsframleiðslu. Í dag er eru þau aðeins 4,5% umfram það sem var í ársbyrjun 2014 og stefnir í að þetta hlutfall verði 2,6% um áramótin.

Og hafið í huga að 2014 var eiginlega botninn eftir Hrun. Kaupmáttur féll mikið eftir Hrun og lífskjör fólks voru við botninn árið 2014. Það er er því ekki normal-ástand, miklu fremur botninn sem launafólk þarf að spyrna sér frá.

Það má því segja að verðbólga sé að þurrka út allan ávinning láglaunafólks af tveimur síðustu kjarasamningum. Og í raun mætti sýna fram á að það hafi þegar gerst. Húsnæðiskostnaður, matur og aðrar grunnþarfir hafa hækkað meira en verðlag almennt. Neysluvísitala láglaunafólks sem fer með allar tekjiur sínar í grunnþarfir hefur því hækkað meira en skráð neysluvísitala.

Þetta er staðreyndin í upphafi kjarasamninga. Sá litli árangur sem náðist að leiðrétta lægstu laun er horfinn. Verkalýðshreyfingin hlýtur að gera kröfu um að þetta verði leiðrétt fyrst, áður en samið verður um áframhaldandi styrkingu kaupmáttar lægstu launa og stærri hlutdeild þeirra í landsframleiðslunni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí