BHM vill prósentuhækkun launa svo hin hærra launuðu fái fleiri krónur. Samtökin vilja að vinna kvenna verði metin til jafns við karla, að orlof verði lengt, vinnuvikan stytt, húsnæðiskostnaður lækkaður og jafnað milli skattlagningu vinnulauna og fjármagnstekna. Kröfugerð sína kallar BHM Jafnréttissamninginn.
„Í jafnréttissamningnum er haft að leiðarljósi að stuðla að auknu jafnrétti, jafnvægi og réttlæti í íslensku samfélagi á breiðum grunni. Óháð kyni, félagslegri stöðu eða uppruna,“ segir í kynningu BHM.
Það segir að meginmarkmiðið með jafnréttissamningnum sé að auka kaupmátt ráðstöfunartekna, leiðrétta skakkt verðmætamat starfa á opinberum markaði og tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika. Í því skyni verði 15 áherslur í brennidepli í komandi kjaraviðræðum aðildarfélaga bandalagsins.
Þær eru:
7 áherslur eru í forgrunni
- Prósentuhækkanir Laun hækki í prósentum og hagvaxtarauki verði inni í öllum samningum
- Jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf Leiðrétt verði kerfisbundið vanmat sem birtist í grunnlaunasetningu í þeim störfum sem að mestu leyti eru unnin af konum
- Veikindaréttur verði útvíkkaður Veikindaréttur nái til alvarlegra veikinda og fráfalls nákominna, auk þess sem veikindaréttur vegna barna nái að 18 ára aldri
- Tilgreind séreign fyrir opinbert starfsfólk Opinberu starfsfólki verði gert heimilt að ráðstafa 3,5% af skylduiðgjaldi í tilgreinda séreign. Tilgreind séreign verði almenn heimild á vinnumarkaði
- Hækkun persónuuppbóta Persónuuppbætur verði hækkaðar í skrefum og fjárhæðir samræmdar milli vinnumarkaða
- Réttindi foreldra í fæðingarorlofi verði tryggð Umsamdar eingreiðslur nái til allra foreldra og forsjáraðila barna í fæðingarorlofi
- Þörfin á sí- og endurmenntun verði viðurkennd Fólk verði stutt betur til starfsþróunar í ljósi örrar þróunar starfa á vinnumarkaði
Varðar beitingu skattkerfis og tilfærslukerfa til að tryggja félagslegan stöðugleika og leiðréttingu á kerfisbundnu óréttlæti í virðismati starfa bætast aðrar átta við.
8 áherslur eru í forgrunni gagnvart stjórnvöldum.
- Leiðrétti skakkt verðmætamat Skuldbinding frá 2016 um launaleiðréttingu í vanmetnum störfum vegna breytinga á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna verði efnd með tímasettum, markvissum aðgerðum. Tryggja þarf sveitarfélögum og stofnunum ríkisins fjárhagslega getu til að greiða jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf
- Auki sanngirni í skattlagningu Draga verður úr hvötum til að telja fram laun sem fjármagnstekjur, innleiða bankaskatt að nýju og hækka hlutdeild almennings í arðsemi sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar
- Styðji við heimili sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað Með fjölþættum aðgerðum og framlengja almenna heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða til ráðstöfunar upp í höfuðstól láns
- Lögfesti styttingu vinnuvikunnar Í 35 stundir í dagvinnu og 32 tíma í vaktavinnu
- Afnemi aldurstengda mismunun Svo fólki á opinberum markaði sé heimilt að vinna lengur en til sjötugs ef það kýs og haldi þá óbreyttri söfnun lífeyrisréttinda
- Hækki hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi Auk þess sem sett verði langtímaviðmið um þróun fjárhæða
- Efli hvata til háskólanáms með auknum námsstyrkjum Með námsstyrkjum og lánum er hægt að tryggja jafnrétti til náms. Auka þarf sveigjanleika við endurgreiðslu námslána og námslán skulu falla niður við töku eftirlauna, varanlega örorku/veikindi eða greiðslu af lánum í 40 ár
- Marki atvinnu- og menntastefnu Í samstarfi við aðila vinnumarkaðar. Mikilvægt er að líta til tengsla menntunar, vinnumarkaðar, lífskjara og hagvaxtar og búa til heilsteypta stefnu til betri lífskjara
Í spilaranum hér að ofan má heyra og sjá viðtal við Friðrik Jónsson formann BHM við Rauða borðið um kröfugerðina.