Borgaryfirvöld í Berlín og London hafa þurft að glíma við umfangsmikið peningaþvætti í fasteignaviðskiptum undanfarin áratug. Hafa yfirvöld Bretlands og Þýskalands reynt að stemma stigu við vandamálinu með því að herða reglur og auka eftirlit. „Illa fengið fé leitar einna helst í dýrar lúxusíbúðir og hefur þannig bæði áhrif á framboð og verð,“ segir í frétt the Guardian.
Transparency International metur það í nýjustu skýrslu sinni um peningaþvætti að Berlín sé einna mest útsett og að setja þurfi frekari reglur í Þýskalandi sem geri fjárfestum erfiðara fyrir að nota illa fengið fé á fasteignamörkuðum. Það sama gildir um London og Bretland allt.
En Transaprency international telur að fimm milljarðar punda hafi farið í gegnum breskan fasteignamarkað sem peningaþvætti á undanförnum áratug. Belgía er á sama hátt metin sem ein miðstöð peningaþvættis af Bandarískum yfirvöldum, ásamt Hollandi, Spáni og Kýpur.
Í frétt á BBC sagði Margaret Hodge þingkona Verkamannaflokksins „að stjórnvöld þyrftu að gera allt til að stöðva flæði af ólöglegu fé inn á fasteignamarkaðinn í eitt skipti fyrir öll … því annars sýndi það sig að þau væru ginkeypt fyrir því.”
Christoph Trautvetter sérfræðingur í skattamálum og spillingu segir í frétt á ExBerliner að notkun fjárfestingarsjóða sé algeng leið til að fela raunverulegt eignarhald og til að þvo peninga í fasteignaviðskiptum. Trautvetter sem leiðir verkefni Rosa Luxembourg-sjóðsins í Berlín sem ber heitið Hver á borgina?, segir það eiginlega ómögulegt sé að rekja eignarhald og uppruna þeirra fjármuna sem þaðan koma inn á fasteignamarkaðinn.
Nýjar reglur til varnar peningaþvætti á fasteignamörkuðum í Þýskalandi eru líklegar til þess að landið bæti frammistöðu sína sem hafi áhrif á Basel stuðulinn, en hann er notaður til að mæla virkni landa í vörnum gegn peningaþvætti. Í fyrra fékk Þýskaland stuðulinn 4,21 og lenti í 15. sæti yfir ríki með bestu varnir gegn peningaþvætti í vestur Evrópu. Í skýrslu fyrir árið 2021 frá International Centre of Asset Recovery sem reiknar út Basel stuðulinn var löndum Evrópu raðað upp miðað við löggjöf og virkni og lenti þar Belgía í 12. sæti með stuðulinn 3,94, Bretland var í 13 sæti með 4,05 og Ísland í 14. sæti með 4,21. Í skýrslunni var það sérstaklega tekið fram að Ísland skoraði hátt í svokölluðu “tæknilegu samræmi” í vörnum gegn peningaþvætti en fékk núll hvað varðar virkni.