Stjórn Brynju leigufélags ses. hefur í ljósi mikillar verðbólgu á þessu ári ákveðið að frysta leiguverð næstu þrjá mánuði. Leigan í desember, janúar og febrúar mun þannig haldast óbreytt frá nóvember 2022, en allir leigusamningar félagsins eru bundnir vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.
Tilgangur Brynju er að kaupa, eiga og reka íbúðarhúsnæði fyrir öryrkja sem leitast er við að leigja þeim gegn eins hóflegu gjaldi og kostur er.
Viðskiptavinir Brynju, eins og allir, þurfa að kljást við hækkandi verðbólgu og vexti. Mánaðarleg leiga hefur hækkað um 8,3% á árinu 2022 sem svarar til þess að búið sé að bæta 13. mánuðinum við árið.
Guðbrandur Sigurðsson framkvæmdastjóri félagsins segir: „Verðbólga og hækkandi vextir setja þrýsting á alla í samfélaginu, en mest þó á þá sem hafa minnst á milli handanna. Brynja vill styðja við bakið á sínu fólki með því að gefa leigjendum sínum verðbólgufrí næstu þrjá mánuðina. Eitt mikilvægasta hagsmunamál Brynju og leigjenda félagsins er að viðhalda lágri verðbólgu og lágum vöxtum.“
Fyrirkomulagið leiguverðsfrystingunni verður þannig að leiguverð í mars 2023 hækkar um sem svarar hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá febrúar til mars 2023.
Frétt af vef ÖBÍ réttindasamtaka.