Leigjendur eru að eldast og munu að óbreyttu enda eignalausir í fangi lífeyrissjóðanna og þurfa að komast af á lífeyrisgreiðslunum einum á óregluvæddum leigumarkaði. Samkvæmt greiningu sem Samtök leigjenda hafa unnið á aldurssamsetningu leigjenda er ljóst að þeir stóru hópar fólks á aldrinum 25-44 ára sem fóru tilneyddir á leigumarkað í kjölfar efnahagshrunsins munu enda í fangi lífeyrissjóðanna á næstu árum.
Samkvæmt nýrri könnun sem Öryrkjabandalag Íslands lét framkvæma kemur í ljós að tæp 50% leigjenda sem þiggja örorkulífeyri greiða yfir 50% af ráðstöfunartekjum heimilanna í húsaleigu. Staðan er þessi þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að heimili sem reiða sig á framfærslu af örorkubótum leiti allra leiða til að minnka húsnæðiskostnað með því að leigja minni eignir og á minna eftirsóttum stöðum.
Í könnun ÖBÍ kemur einnig fram að fjörutíu og tvö prósent örorkulífeyrisþega á leigumarkaði hafa lent í vanskilum með húsaleigu á síðustu árum árum og tæplega fjörutíu prósent þeirra reiða sig á ættingja og hjálparstofnanir með framfærslu. Fimmtán prósent þeirra hafa misst heimili sín vegna vanskila.
Það syrtir í álinn þegar rýnt er í stöðu örorkulífeyrisþega innan félagslega rekins húsnæðiskerfis, en rúm áttatíu prósent þeirra hafa ekki fengið íbúðir hjá sveitarfélögunum og þeir sem hafa fengið slíkt hefur helmingur þeirra þurft að bíða í lengur en 3 ár. Einungis tíu prósent leigjenda segja auðvelt að finna íbúðir á almennum leigumarkaði.
Ætla má að staða almennra lífeyrisþega sé með líkum hætti. Undanfarna áratugi hafa innan við 6% íbúa landsins verið á leigumarkaði þegar komið lífeyrisaldur. Nú horfir öðruvísi við, hlutfall íbúa landsins á leigumarkaði hefur aukist mikið og skv mælingum Hagstofunnar og HMS hafa leigjendur uppúr þrítugu enga möguleika á að komast þaðan, þrátt fyrir að einungis tíu prósent þeirra vilji vera þar.
Eignalausir leigjendur, nauðugir á óregluvæddum leigumarkaði enda því bráðum í fangi lífeyrissjóðanna. Leigjendur búa við að þrefalt hærra hlutfall íþyngjandi húsnæðiskostnaðar en þeir sem búa í eigin húsnæði. Áratugalöng dvöl leigjenda á leigumarkaði undir og við fátækramörk mun því enda í algerri örbirgð ef lífeyrissjóðirnir bregðast ekki við með því að hækka lífeyri umtalsvert eða útvega sjóðfélögum sínum ódýrt leiguhúsnæði.