Flóttamannarassía og aukin harka í aðdraganda landsfundar

Óhjákvæmilegt er að setja harkalegar aðgerðir lögreglunnar gegn flóttafólki í gærkvöldi og nótt í pólitískt samhengi. Þær koma í kjölfar umræðu um hættuna af fjölgun flóttafólks, umræðu sem drifin hefur verið áfram af forystufólki Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda landsfundar flokksins. Landsfundurinn verður settur á morgun.

Engin andmæli við þessum aðgerðum hafa heyrst frá forystufólki Framsóknar og Vg. Þögn Katrínar Jakobsdóttir kallaði á viðbrögð Sjón, sem hætti við að mæta á glæpasagnaráðstefnu, vildi ekki deila sviðsljósi með Katrínu sem lætur ofbeldið gagnvart flóttafólkinu óátalið.

Innan Samfylkingarinnar er einnig rætt um þögn nýkjörins formanns. Logi Einarsson, fráfarandi formaður, lét málefni flóttafólks mjög til sín taka, og þögn Kristrúnar Frostadóttir þykir því hávær innan flokksins.

Isavia hefur beðið fjölmiðla afsökunar vegna framkomu starfsfólks félagsins, sem hlýddi tilskipunum lögreglu um að trufla störf fréttafólks.

Mikil spenna er innan Sjálfstæðisflokksins vegna komandi landsfundar. Komið hefur fram í könnunum að afstaða kjósenda flokksins gagnvart flóttafólki er svipað og afstaða kjósenda Miðflokks og Flokks fólksins, sem báðir hafa gælt við útlendingaandúð í málflutningi sínum. Það er því ekki hægt annað að setja óvenju harkalegar aðgerðir lögreglunnar í samhengi við landsfundinn, að þarna sé forysta flokksins að sýna klærnar fyrir grasrótina, líklega í von um betri útkomu á landsfundinum.

Myndin er af aðgerðum lögreglunnar í nótt.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí