Kannanir benda til að Bjarni komist ekki lengra

Þegar afstaða almennings til Bjarna Benediktsson, formanns Sjálfstæðisflokksins, er skoðuð er margt sem bendir til að hann komist ekki lengra með Sjálfstæðisflokkinn. Hann nýtur lítils trausts utan raða Sjálfstæðisflokksins. Þetta verður enn meira áberandi þegar traust á Bjarna er borið saman við traust á Guðlaugi Þór Þórðarsyni, mótframbjóðanda hans.

Í síðustu könnun Maskínu á trausti almennings á ráðherrum ríkisstjórnarinnar mældist Bjarni með afspyrnulítið traust. Aðeins 18% aðspurðra sögðust treysta Bjarna en 71% sögðust vantreysta honum. Könnunin var gerð stuttu eftir að í ljós kom hvernig staðið var að sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka og hefur það örugglega dregið traust á Bjarna niður. En á móti kemur að allan sinn feril hefur Bjarni farið úr einu hneykslinu yfir í næsta, svo það er erfitt að finna stund til að mæla traust á Bjarna án áhrifa af hneykslismálum.

Því er oft haldið fram í fjölmiðlum að Bjarni hristi þessi hneyksli af sér, að hann sé teflon-maður sem hryndi af sér allri gagnrýni. Skoðanakannanir styðja þetta ekki. Þvert á móti sýna þær aftur að aftur að Bjarni nýtur mjög lítil traust, og óvenjulítils þegar horft er til þess að hann er formaður stærsta flokksins og afgerandi valdsmaður. Þessi kenning um teflonið, virðist bundið við sérfræðingastéttina sem er kannski um 15% landsmanna en líklega um 99% viðmælenda fjölmiðla. Og forysta annarra stjórnmálaflokka lifir í þessari búblu, sættir sig öll hneyksli Bjarna og finnst hann flottur. Öfugt við þjóðina.

En berum Bjarna saman við Guðlaug Þór. Könnunin var gerð löngu áður en Guðlaugur bauð sig fram, svo líta má á hann sem viðmiðun, dæmi um venjulegan stjórnmálamann.

Bjarni naut 18% trausts allra en 71% vantrausts. Við getum sagt að staða hans hafi verið mínus 53%.

Guðlaugur Þór naut 31% trausts en 36% vantrausts. Staðan hans var því mínus 5%.

Og hvort sem við notum svona samlagningu eða skoðum aðeins þau sem sögðust treysta viðkomandi þá er staða Guðlaugs betri hjá öllum hópum. Nema Sjálfstæðisflokknum.

Munurinn er meiri eftir því sem fólk er yngra og með minni tekjur, sem oft helst í hendur. En heilt yfir og almennt er Guðlaugur með um 40% betri stöðu en Bjarni. Hjá þeim elstu og tekjuhæstu fellur munurinn niður í um 25% en hjá hinum ungu og tekjulágu slær hann upp í 60%.

Þegar aðeins er horft til þeirra sem segjast vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn snýst þetta við. Þá segjast 80% treysta Bjarna en aðeins 9% vantreysta honum. Hjá Guðlaugi Þór er hlutfallið 70% traust og 8% vantraust.

En þarna er Sjálfstæðisflokkurinn kominn niður í einskonar kjarnafylgi, kjósendur hafa elst og mikið fylgi fallið frá flokknum, hann klofnað og aðrir flokkar náð að vaxa upp af því sem fallið hefur frá xD.

Viðreisn var stofnuð 2016 af Sjálfstæðisflokksfólki sem töldu sér ekki vært innan gamla flokksins. Flokkur fólksins var stofnaður sama ár og að því komu gamlir Sjálfstæðisflokksmenn. Þegar Miðflokkurinn var stofnaður eftir klofning Framsóknar, sótti sá flokkur bæði frambjóðendur og kjósendur til Sjálfstæðisflokksins. Og mörgum Sjálfstæðisflokksmönnum finnst sem vöxtur Framsóknar á liðnum árum hafi fyrst og fremst verið á kostnað Sjálfstæðisflokksins, að Framsókn hafi hreinsað upp vaxtarmöguleika xD. Það var einkar augljóst í borgarstjórnarkosningunum í vor, en kosningabaráttan fór fram undir Íslandsbankahneyksli Bjarna.

Ef við tökum þessa fjóra flokka saman, segjum að kjósendur þeirra séu mögulegir kjósendur Sjálfstæðisflokksins ef flokknum tekst að breikka ásýnd sína og stefnu, kemur í ljós mikill munur á Guðlaugi Þór og Bjarna.

Innan þessa hóps segjast 36% treysta Guðlaugi en 30% vantreysta honum. Þegar spurt er um Bjarna segjast 14% treysta honum en 71% vantreysta honum. Í samanburði við Guðlaug er Bjarni króaður af, hann drífur lítið út í næstu flokka.

Ef einhver hefur áhuga á afstöðu hinna flokkanna til þeirra Bjarna og Guðlaugs Þórs, Samfylkingar, Vg, Pírata og Sósíalista, þá segjast aðeins 2% treysta Bjarna en 93% vantreysta honum, en 11% treysta Guðlaugi Þór en 60% vantreysta honum.

Þetta er ekki „low hanging fruits“ fyrir Sjálfstæðisflokkinn, það eru frekar stuðningsmenn hinna flokkanna. En þeir ávextir eru hærra upp í trénu hans Bjarna.

Til að skýra frekar muninn á milli þessara tveggja má búa til hugtak um skammdrægi og langdrægi stjórnmálafólks. Skammdrægi er þá það fylgi sem er aðgengilegt viðkomandi stjórnmálamanni út frá traustmælingu, það hlutfall sem segist treysta viðkomandi stjórnmálamanni.

Skammdrægi Bjarna var 18% í vor þegar könnunin var gerð, þegar Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 19% fylgi. Skammdrægni Guðlaugs var þá 31%.

Langdrægi er þá sá fjöldi sem ekki lýsir yfir vantraust, fólk sem treystir eða svarar með hvorki né. Langdrægi Bjarna var þarna 29% en Guðlaugs Þórs 65%. 71% kjósenda eru utan drægi Bjarna en aðeins 35% kjósenda hafa lokað á Guðlaug Þór.

Eins og áður sagði er Guðlaugur Þór hér notaður sem dæmi til að sýna hversu veik staða Bjarna er. Þessi könnun var gerð áður en Guðlaugur bauð sig fram, kannski myndi hann mælast öðruvísi í dag. En það er augljóst af þessari könnun, og í raun mörgum öðrum, að Bjarni er búinn með pólitíska inneign sína og kemst ekki mikið lengra.

Og ástæðan er auðvitað röð af hneykslismálum og hversu illa hann nær til almennings utan innsta kjarna Valhallar. Þessar kannanir sýna í raun ástæðu þess að stjórnmálafólk víðast um heim segir af sér þegar það verður uppvíst af því að fylgja ekki reglum sem það sjálft setur, brjóta gegn almannahag eða hygla sér nákomnum. Það fólk getur notið stuðnings samherja, en það étur upp vaxtarmöguleika flokka sinna. Þess vegna segir það af sér, svo það sé ekki dragbítur á sínum flokki.

Einhverra hluta vegna eru sérfræðingarnir sem halda uppi umræðu í samfélaginu blindir á þetta. Þeir eru í kórnum og geta ekki lesið söfnuðinn, kunna ekki einu sinni að lesa kannanir sem sýna afstöðu fólks út í salnum. Kórinn horfir á prestinn sem snýr að honum með bakið í söfnuðinn og kórfélagar finna til sín, finnst notalegt að eiga traust prestsins og treystir honum á móti. Söfnuðinum leiðist hins vegar og sumir eru farnir í aðrar kirkjur.

Það má lesa af mörgum greinum sem stuðningsfólks Guðlaugs Þórs skrifar, fólk sem er þá óánægt með Bjarna og stjórn hans á flokknum, að það er um þetta sem formannskosningin á landsfundinum mun snúast.

Kosningin verður miklu fremur um Bjarna en Guðlaug Þór. Hún verður dómur um hvort klofningur flokksins á undanförnum árum, lélegur árangur í kosningum og endalaus vörn flokksfólks vegna hneykslismála formanns sé ásættanlegt ástand.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí