Verðbólga á Íslandi hækkar samkvæmt samræmdri evrópskri vísitölu en er enn lág miðað við önnur lönd. Verðbólgan er bara minni í Sviss. Almenn verðbólga er samkvæmt þessu 6,4% síðustu tólf mánuði á sama tíma og launavísitalan hefur hækkað um 7,9%. Þegar húsnæðisliðurinn er tekinn með hækkar verðbólgan hins vegar í 9,4%. Þetta sýnir að byrðar af verðbólgunni leggjast ólíkt á fólk og heimili.
Einn þriðji af verðbólgunni er vegna hækkunar húsnæðiskostnaðar og leggst þyngst á þau heimili sem eru með breytilega óverðtryggða vexti á lánum sínum. Launavísitalan sýnir merki um launaskrið, sem er kannski ekki að undra í ljósi kannana sem sýna að flest fyrirtæki vilja bæta við sig starfsfólki og atvinnuleysi er lágt. En þetta launaskrið skríður ekki jafnt fram, leggst ólíkt á atvinnugreinar og stéttir.
Og verðbólgan sem er mæld leggst líka ólíkt á fólk og heimili, bæði hin almenna þar sem matur hækkar hvað mest og síðan sú íslenska þar sem húsnæðiskostnaðurinn kemur inn. Fólk með lágar tekjur en sem skuldar mikið eða er fast á leigumarkaði lendir í mestum vanda vegna verðbólgu. Og ef það starfar þar sem ekkert launaskrið er, hjá hinu opinbera, í láglaunastörfum eða er á lífeyri þá hefur það mátt þola mikla kaupmáttarrýrnun. Á hinum endanum er síðan fólk sem skuldar lítið, er með miklar tekjur og starfar þar sem launaskriðið er hafið.
Þessar mælingar, á verðbólgu og launum, dregur fram að aðgerðir gegn verðbólgu og til að verja þau sem veikast standa, verða að vera sértækar. Það þarf að hækka lægstu tekjur, bæði laun og lífeyri, og hemja húsnæðiskostnaðinn, sem er álíka skaðvaldur á Íslandi og orkukreppan í Evrópu.
Og þessar mælingar sýna líka að það er fullkomlega innihaldslaust að tala út frá meðaltölum, eins og ráðherrarnir gera. Þótt meðaltalið sýni ekki kaupmáttarrýrnun þá eru stórir hópar sem eru að taka á sig mikla kaupmáttarrýrnun.
Verðbólgan er ólík innan Evrópusambandsins, er aðeins örlítið hærri í Frakklandi en á Íslandi, 7,1%. En er yfir 20% í Ungverjalandi og Eystrasaltslöndunum, 22,5% í Eistlandi. Almennt er verðbólgan hærri í austrinu þar sem nýfrjálshyggjan hefur gengið lengst og í þeim löndum sem flytja inn mest af orku. Verðbólgan er þannig 16,8% í Hollandi en 7,1% í Frakklandi. Ástæðan er fyrst og fremst sú að kjarnorkan í Frakklandi dregur úr hækkun á orkuverði.