Kjósendur átta borga í Kaliforníu kjósa um hertari húsaleigulöggjöf samhliða þingkosningunum sem fara fram í Bandaríkjunum í dag. Mismunandi er um hvað er kosið í borgunum átta, þar sem borgaryfirvöld reka sínar eigin stefnur í húsnæðismálum. Reglur um leigumarkaðinn er mismunandi á milli borga og ekki síst á milli fyljanna sjálfra.
Samtökin Tenants together í Kaliforníu hvetja leigjendur til að mæta á kjörstað, en kosningaþátttaka þeirra hefur verið lægri en á meðal fasteignaeigenda í Bandaríkjunum. Helst það í hendur við minnkandi trú á lýðræðið eftir því sem eignastaðan er veikari. Einnig benda samtökin á að óstöðugleiki fólks á húsnæðismarkaði dragi enn frekar úr kosningaþátttöku vegna ítrekaðra flutninga.
Borgirnar átta eru Oakland, San Francisco, Berkely, Richmond, Santa Monica, Los Angeles, Pasadena og Sacramento.
Á meðal þess sem kosið er um er að hækka skatta á spákaupmenn sem eiga tómar íbúðir, að herða á leigubremsu og taka fyrir frekari hækkanir á húsleigu, meiri réttarvernd ásamt því skattleggja eigendur dýrra íbúða sem færi í að niðurgreiða húsnæði fyrir leigjendur.
Leigjendur í Kaliforníu hafa vakið mikla athygli í Bandaríkjunum undanfarin misseri fyrir að hafa verið iðnir við að fara í leiguverkföll þegar ekki hefur tekist að semja um sanngjarna leigu. Vinsældir þannig aðgerða hafa vaxið mikið í fylkinu því að árangurinn hefur ekki látið á sér standa því margir fjárfestar á fasteignamarkaði hafa þurft að lúta í lægra haldi fyrir leigjendum.