Hagstofan birti í morgun upplýsingar um byggingamarkaðinn sem sýna að þar er ekkert að skána. Íbúðum í byggingum fjölgaði lítillega frá fyrra ári en á móti fækkaði fullkláruðum íbúðum á árinu. Það eru engin merki um að byggingariðnaðurinn skili þeim 4000 íbúðum á ári sem talið er nauðsynlegt til að vinna á húsnæðiseklunni, sem er grefur undan lífskjörum tugþúsunda fjölskyldna.
Í sjálfu sér ætti þetta ekki að koma neinum á óvart. Byggingariðnaðurinn og húsnæðiskerfið hefur ekkert breyst frá því ríkið dró sig út af íbúðalánamarkaði 2004 eftir að hafa veikt félagslega leigukerfið og lagt niður Verkamannabústaði. Árin þar á undan höfðu önnur félagsleg úrræði fjarað út, en ýmis konar samvinnufélög höfðu verið virkir þátttakendur á húsnæðismarkaðinum frá því á eftirstríðsárunum. Og þegar úthlutun lóða var hætt og þær boðnar hæstbjóðandi hættu fjölskyldur að byggja sjálfar og verktakar og lóðabraskarar með greitt aðgengi að fjármagni urðu allsráðandi.
Ef við skoðum fullkláraðar íbúðir á hverja 100 þúsund íbúa ári frá 1970 sést hvaða áhrif þessi kerfisbreyting hafði:
Þarna er dregin rauð lína sem sýnir meðaltal kláraðra íbúða á ári frá 1970. Síðan er þarna þynnri rauð punktalína sem sýnir meðaltalið frá 1970 til 1995 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tók við, en hún átti eftir að umturna byggingar- og húsnæðiskerfinu næstu árin. Og síðan önnur rauð punktalína sem sýnir meðaltalið frá 1995.
Þetta graf sýnir vel áhrifin af þeim breytingum sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stóð fyrir. Það má segja að í stað nokkurs stöðugleika hafi tekið við stjórnlausar bólur og hrun, ekkert jafnvægi í framboði á íbúðum. Og almennt of lítið framboð sem spennti upp verð og gróf þar með undan lífskjörum.
Þar sem Hagstofan leggur áherslu á að íbúðum í byggingu hafi fjölgað skulum við bæta þeim við:
Þarna sjást afleiðingarnar af kerfisbreytingunni líka skýrt. Tvær grænar línur eru dregnar í gegnum súlurnar. Sú neðri sýnir meðaltal íbúða í byggingu á hverja 100 þús. íbúa á ári frá 1970. Takið eftir að frá 1990 hafa verktakar ekki náð þessu meðaltali nema yfir hábóluna 2005-08. Og sama má segja um samanlagt magn íbúða í byggingu og fullkláraðar íbúðir.
Kerfisbreytingin sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar stóð fyrir gróf í raun undan húsnæðiskerfinu. Frá þeim tíma hefur verið byggt of lítið. Skorturinn hefur þrýst upp verðinu. Og niðurstaðan er hærri húsnæðiskostnaður fyrir almenning og meira óöryggi, einkum fyrir hin tekjulágu.
Nýfrjálshyggjulausnir þessara flokka voru kynntar sem að þær myndu auka stöðugleika, lækka verð og tryggja fleirum öruggt húsnæði. Niðurstaðan varð þveröfug.
Hringurinn til vinstri á grafinu er dreginn um verðbólguárin á áttunda áratugnum og fram á þann níunda, að þeim tíma að víxlverkun verðlags og launa var rofin með því að hækka laun minna en verðlag, þannig að verðtryggð lán hækkuðu umfram greiðslugetu fólks. Fyrir þann tíma var mikil húsnæðisuppbygging keyrð áfram af félagslegum verkefnum, uppbyggingu verkamannabústaða og allskyns samvinnufélaga, og neikvæðum vöxtum á verðbólgutímum sem ýttu undir framkvæmdir.
Á eftir þessum tíma tóku við tilraunir til að byggja upp eðlilegt húsnæðiskerfi innan verðtryggingar, ekki síst undir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sem var félagsmálaráðherra 1987-1994. Þetta var einskonar blandað kerfi. Lán til einkaaðila en jafnframt uppbygging félagslegs kerfis, jafnt leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða.
Það var þetta kerfi sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar erfði og vildi afleggja. Og nú er staðan sú að ástandið á húsnæðismarkaði stendur í vegi fyrir að hægt sé að klára kjarasamninga. Staða fólks á húsnæðismarkaði veldur mestu um afkomu þess. Leigjendur og fólk sem er að greiða af óverðtryggðum lánum þyrftu að fá 250 þús. kr. launahækkun til að bæta fyrir kaupmáttarrýrnun í dýrtíðinni á meðan húseigendum með verðtryggð lán dygðu ef til vill að fá 125 þús. kr.
Ónýtt húsnæðiskerfi hefur magnað upp stéttamun og grafið undan kaupmætti lágtekjufólks, keyrt öryrkja, fátækt eftirlaunafólk og láglaunahópa niður í fátækt.
En umbreytingin, sem við getum kallað braskvæðingu húsnæðiskerfisins hefur líka grafið undan séreignarstefnunni, sem flestir landsmenn telja líklega að sé grunnurinn að íslenskri húsnæðispólitík.
Það sést vel á samanburði milli ára á hverjir eiga íbúðirnar, hvort það eru einstaklingar eða fyrirtæki sem eiga aðeins eina íbúð eða einstaklingar og fyrirtæki sem eiga fleiri en eina íbúð.
Þarna eru allar íbúðir á landinu undir svo sýnilegt breytingin er hæg, að baki eru kannski +60 ár sem fólk er á eignamarkaði. En breytingin er samt umtalsverð og merkilega hröð.
Ef við tökum árið 2003 sem viðmiðun, árið fyrir stofnun Íbúðalánasjóðs, þá voru 72,6% íbúða í eigu einstaklinga og fjölskyldna sem áttu aðeins eina íbúð. Nú er þetta hlutfall komið niður í 62,5%. Meira en 10% íbúða hafa fallið frá þeim sem eiga eina íbúð, og búa líklega í henni, yfir til þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð og eru líklega að leigja út íbúðir. Leiguliðavæðing er því að taka við af séreignarstefnunni.
Frá 2005, ári eftir að íbúðalánasjóður var stofnaður, hefur íbúðum fjölgað um tæp 36 þúsund. Af þeim hafa aðeins tæplega 12.500 farið til einstaklinga og fjölskyldna sem eiga aðeins eina íbúð, eða rétt rúm 29%. Hinar íbúðirnar tæplega 23.500, 71%, hafa farið til fyrirtækja eða einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð, mest til útleigu til leigjenda.
Við umbyltingu húsnæðiskerfsins lýsti Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn því yfir að flokkarnir vildu ýta undir séreign, hjálpa einstaklingum og fjölskyldum til að eignast húsnæði. Hið þveröfuga hefur gerst. Kerfið sem flokkarnir bjuggu til hefur grafið undan séreignarstefnunni og magnað upp leigumarkaðinn. Og þetta er enn kjarninn í húsnæðisstefnu stjórnvalda.
Braskvæðingin hefur ekki aðeins gerst með stóraukinni ásókn fyrirtækja og einstaklinga inn á leigumarkaðinn, þar sem verðið hefur verið spennt upp. Hinn félagslegi hluti leigumarkaðarins hefur líka verið veiktur með því að selja út úr kerfinu og hægja á uppbyggingu. En ekki síst með því að leiguverð innan félagslega kerfisins hefur verið hækkað upp að markaðsverði hins óbeislaða markaðar. Braskið er því leiðandi, langt inn á þau svæði sem ætla mætti að væru varin fyrir okrurum.