Uppsagnir meðal tæknifólks í Bandaríkjunum

Töluverðar breytingar hafa orðið á stöðu tæknifólks í Bandaríkjunum að undanförnu líkt og innan annara geira atvinnulífsins. Flest stóru tæknifyrirtækin hafa nýlega sagt upp stórum hópum starfsfólks og slær fjöldi uppsagna nú hátt upp í 100 þúsund þar sem af er ári. Atvinnuleysi í greininni helst hins vegar lágt og hefur aðeins hækkað örlítið á milli mánaða og er nú 2,2%.

Þetta er samt sem áður mikill viðsnúningur frá fyrra ári þegar stórir hópar tæknifólks hættu eða skiptu um vinnu vegna mikillar eftirspurnar. Áður en verðbólgan skall á virtist launafólk meðal millistéttarinnar hafa sterka stöðu gagnvart atvinnurekendum. Tæknifyrirtækin skorti starfsfólks og fátt benti til að það myndi breytast í bráð. En aðeins ári eftir tímabil sem hefur verið kallað The Great Resignation — þegar milljónir sérfræðinga og tæknifólks í millistétt gengu á dyr — hefur taflið snúist við og margir eru farnir að óttast um starfsöryggi sitt og framtíðina.

Millistéttin treg til stéttabaráttu

Þessar skjótu breytingar kalla eðlilega eftir því að starfsfólk hinnar menntuðu millistéttar velti fyrir sér hvernig það geti varið réttindi sín og stöðu. Þó svo að áhugi á stéttarfélögum hafi aukist mikið undanfarin ár hefur það ekki leitt til stórra breytinga enn sem komið er. Sérstaklega ekki meðal millistéttarinnar og tæknimenntaðra sem sögulega hefur verið andsnúnari verkalýðsfélögum en annað verkafólk. Ástæður þess geta legið í stöðu millistéttarinnar, hærri launakjara, og ótta við að missa stöðu sína og falla niður um stétt. Í staðin fyrir að stofna verkalýðsfélög hefur millistéttin lagt traust sitt á atvinnurekendur.

Stéttarfélagavæðing meðal tæknifólks í Bandaríkjunum hefur nánast verið óþekkt þangað til nýlega þrátt fyrir að geirinn sé meðal þeirra arðbærustu í landinu. Fyrsta stéttarfélag tæknifólks þar í land varð raunar aðeins til árið 2020 þegar starfsfólk Kickstarter fyrirtækisins reið á vaðið. Starfsfólkið skrifaði svo undir samning sem var samþykktur með 95% atkvæða fyrr á árinu. Samningurinn tryggði meðal annars árlegar launahækkanir, aðkomu að gerð frammistöðumats sem þekkist víða innan geirans, frelsi frá íþyngjandi rafrænu eftirliti af hendi atvinnurekenda, og 16 vikna fæðingarorlof sem þykir töluvert framsækið vestra.

Annað dæmi er verkalýðsfélag tæknifólks hjá New York Times sem varð líka til á árinu en hefur enn ekki náð samningum við fjölmiðlarisann. Tæknifólk hjá Google hefur líka unnið að því að byggja upp félag, Alphabet Workers Union. Rúmlega eitt þúsund starfsmenn hafa gengið í félagið en það er þó aðeins lítið brot af 130 þúsund sem starfa hjá fyrirtækinu. Vegna þessa hefur það ekki leyfi National labor Relations Board til að semja fyrir hönd starfsmanna.

Uppsagnir byggðar á einkunnagjöf viðtekin venja

Það er frammistöðumatið sem er sérstaklega varhugavert en víða innan tæknigeirans í Bandaríkjunum viðgengst að starfsfólki sé úthlutað einkunn eftir svokölluðu stack ranking kerfi og starfsfólki þannig raðað í röð eftir því hversu vel það þykir standa sig og verðmætt það þykir fyrir atvinnurekendur. Starfsmenn sem fá lága einkunn eru svo oftar en ekki reknir og nýir ráðnir í staðinn. Frá sjónarhóli fyrirtækjanna er þetta frábært kerfi. Þau geta sagt upp stórum hópum og agað annað starfsfólk með hærri einkunn til þess að vinna meira og hraðar. Aðferðin hjálpar líka fyrirtækjum við að viðhalda ákveðnu stigi atvinnuleysi sem aftur hjálpar þeim að halda aftur að launakröfum. Það nefnilega óttinn við að vera rekinn sem heldur starfsfólki í skefjum og frá því að falast eftir auknum réttindum.

Þrátt fyrir neikvæð áhrif þar sem starfsfólki er still upp gegn hvert öðru, hefur ekki dregið úr notkun slíkra aðferða og uppsagna. Starfsfólk sem sem starfar innan fyrirtækja eins og Google og Amazon segir að aðferðin hafi verulega neikvæð áhrif á starfsanda og búi til eitrað andrúmsloft þar sem starfsfólk er sett í þá stöðu að keppa gegn hvert öðru í stað þess að vinna saman. Fyrir stóru tæknifyrirtækin vega kostirnir þó greinilega þyngra en neikvæðar afleiðingar á vellíðan starfsfólks.

Mikil tækifæri fólgin í stéttabaráttu

Atburðir síðustu missera ættu að sýna millistéttinni og tæknifólki í Bandaríkjunum að þau eru ekki örugg með stöðu sína og að með uppbyggingu verkalýðsfélaga væri hægt að tryggja starfsfólki aukin réttindi og verja það gagnvart ómannúðlegum aðferðum eins og frammistöðumati byggt á einkunnagjöf. Tæknigeirinn í Bandaríkjunum er nefnilega gríðarlega mikilvægur fyrir efnahagskerfið þar í landi og þess vegna hefur tæknifólk fræðilega töluverð völd og möguleika til þess að bæta stöðu sína. Ef því tekst að stéttarfélagavæðast það er að segja. Góðu fréttirnar fyrir millistéttina eru að áhugi á stéttarfélögum hefur aldrei verið meiri þó aðild sé í sögulegu lágmarki þvert á atvinnugreinar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí