Íslendingum hefur aldrei fjölgað meira en á þessu ári. Frá 1. desember í fyrra hefur landsmönnum fjölgað um 11.500 og reikna má með að landsmenn verði 388 þúsund í árslok og 400 þúsund í lok næsta árs. Fjölgunin er hlutfallslega mest á Suðurnesjum og Suðurlandi. Reykjanesbær er það sveitarfélag sem vex hraðast.
Ef við skoðum hvar mest hlutfallsleg aukning hefur verið síðustu ellefu mánuði sést að það eru bæir utan höfuðborgarsvæðisins sem vaxta hraðast. Þetta er topp tíu bæja með meira en tvö þúsund íbúa, þeir sem vaxa meira en landsmeðaltalið:
- Reykjanesbær +7,5%
- Hveragerði +6,7%
- Borgarbyggð +4,9%
- Hornafjörður +4,3%
- Suðurnesjabær +4,2%
- Ölfus +3,9%
- Norðurþing +3,9%
- Árborg +3,4%
- Rangárþing eystra +3,2%
- Múlaþing +3,1%
Ef við búum til sambærilegan lista yfir bæi með fleiri en tvö þúsund íbúa sem hafa vaxið minnst þá er sá svona:
- Seltjarnarnes -1,2%
- Skagafjörður +0,1%
- Ísafjarðarbær +0,9%
- Fjarðabyggð +1,3%
- Akranes +1,4%
- Grindavík +1,6%
- Akureyri +1,7%
- Kópavogur +1,8%
- Vestmannaeyjar +1,9%
- Garðabær +2,1%
Það eru þrjú sveitarfélög sem falla þarna á milli, komast hvorki á topp tíu né botn tíu: Mosfellsbær +2,6%, Reykjavík +2,6% og Hafnarfjörður +2,5%.
Þetta eru aðeins ellefu mánuðir og svo stutt tímabil segir kannski ekki mikla sögu. Það má þó greina þarna vissa sögu. Það er ferðaþjónusta sem drífur áfram fjölgun landsmanna, hún er frekar þar sem ferðamannastraumurinn liggur. Bæirnir í níu efstu sætunum eru við Keflavíkurflugvöll og síðan leiðina að Skaftafelli, auk Mývatns.
Og síðan er augljóst að húsnæðiseklan á höfuðborgarsvæðinu hefur áhrif. Þótt Akranes hafi ekki vaxið eins hratt síðustu ellefu mánuði og áður þá eru helstu vaxtabæirnir í klukkutímanum kringum höfuðborgarsvæðið, frá Suðurnesjum upp í Borgarfjörð og austur að Selfossi.
Listinn yfir vöxt bæja síðustu þrjú árinu, frá því rétt fyrir cóvid:
- Hveragerði +17,9%
- Reykjanesbær +12,8%
- Ölfus +12,6%
- Garðabær +11,1%
- Árborg +11,0%
- Mosfellsbær +10,7%
- Suðurnesjabær +8,8%
- Reykjavík +6,1%
ÍSLAND +6,1% - Múlaþing +5,9%
- Akranes +5,5%
- Borgarbyggð +5,4%
- Hornafjörður +4,9%
- Akureyri +4,7%
- Kópavogur +4,6%
- Rangárþing eystra +4,1%
- Grindavík +4,0%
- Fjarðabyggð +3,6%
- Vestmannaeyjar +3,3%
- Ísafjörður +1,7%
- Hafnarfjörður +1,7%
- Skagafjörður +1,6%
- Norðurþing +1,4%
- Seltjarnarnes -1,0%
Ein leið til að skilja Ísland nútímans er að skipta því í fernt: Höfuðborgarsvæðið, klukkutíminn kringum höfuðborgarsvæðið, túristaslóðin til Hornarfjarðar og svo restin af landinu. Það Ísland lítur svona út raðað eftir íbúafjölda (innan sviga er fjölgun síðustu þrjú árin):
Höfuðborgarsvæðið: 246.426 íbúar (+5,7%)
Klukkutíminn: 63.672 íbúar (+10,0%)
Túristaslóðin: 9.180 íbúar (+8,1%)
Restin af Íslandi: 66.972 íbúar (+3,5%)
Þess verður ekki lengi að bíða að fleiri búi á klukkutímanum kringum höfuðborgina en á Íslandi frá Dölunum og Snæfellsnesi norður og austur fyrir að Djúpavogi. Með sama áframhaldi gerist það 2025.
Ef við höldum áfram að reikna með að allt verði áfram eins og verið hefur þá mun samsetning landsins verða þannig þegar landsmenn fara yfir 500 þúsund á árinu 2031: 36% landsmanna búa í Reykjavík, 26% í kraganum kringum borgina, 20% í klukkutímanum þar um kring og 18% annars staðar á landinu.