Vilja gera fleirum kleyft að auðgast á leigjendum

Nýsköpunarfyrirtækið Hluteign kynnti fyrir skömmu fyrirætlan sína um að auðvelda fjárfestum að komast yfir íbúðir til útleigu. Gengur hún út á að gera þeim kleift að fjárfesta í húsnæði fyrir upphæðir á milli 10 þúsund krónur og 10 milljónir. Þannig geti fjárfestar með minni fjárhagslega burði hagnast á verðhækkunum íbúðarhúsnæðis og eignamyndun sem leigjendur þess standa fyrir. Á dögunum var fyrirtækið tekið inn í Íslenska fjártækniklasann.

Markmið fyrirtækisins er að auka aðgengi almennings húsnæðismarkaði óháð eiginfjárstöðu og lánstrausti og auka þannig framboð af leiguhúsnæði, veita almenningi fleiri verkfæri til að gera slíkt. “Hluteign er að gera spennandi hluti, sem snúast um að færa almenningi fleiri tól til að fjárfesta, spara og efnast.” Segir Gunnlaugur Jónsson framkvæmdarstjóri fjártækniklasans á vef Fasteignabloggsins. Rúmlega eitt þúsund Íslendingar hafa skráð sig á biðlista fyrirtækisins.

Einar Ben stjórnarformaður Hluteignar sem hefur setið í stjórnum hjá Viðskiptaráði segist þakklátur fyrir að fá að vinna með öðrum fyrirtækjum hjá fjártækniklasanum, þar seti menn nýsköpun í fjártækni í forgrunn og séu öflugt bakland fyrir fyrirtækið.

Fjárfesting í íbúðarhúsnæði til útleigu er ein besta fjárfesting sem völ er á segir á heimasíðu Hluteignar. Á heimasíðunni er hægt að reikna út arðsemi af fjárfestingu og leigutekjum með tilliti til upphæð fjárfestingar og tímalengdar. Hvetur fyrirtækið almenning til að setja sparnað sinn í að fjárfesta í leiguhúsnæði og njóta svo stöðugra leigutekna og verðhækkana á fasteignamarkaði, segir á heimasíðunni að „með því að ávaxta fermetrana með reglulegum leigugreiðslum og njóta góðs af hækkandi fasteignaverði, gefst þér kostur á að besta vaxtakjörin.“

Fáðu leigugreiðslur beint í vasann eru hvatningarorð fyrirtækisins til sparifjáreigenda og ætla má að margir ungir fjárfestar sjái tækifæri í þessháttar viðskiptum enda á allra vitorði að leigjendum fjölgar og samkvæmt mælingum eiga þeir engrar undankomu auðið af leigumarkaði. Verðlag á leigumarkaði hefur hækkað mikið umfram laun undanfarin áratug og hefur einnig haft margfalt hærri samfylgni við verðþróun á fasteignamarkaði hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum.

Fyrirtækið sér mikla möguleika í því að ávaxta fé sparifjáreigenda á íslenskum heimilum sem eru föst á leigumarkaði og hvetur alla til að nýta sér tækifærin sem felast í því.

Samstöðin er umræðu- og fréttavettvangur sem studdur er af almenningi í gegnum Alþýðufélagið. Ef þér líkar efni Samstöðvarinnar getur þú eflt hana með því að gerast einskonar áskrifandi sem félagi í Alþýðufélaginu. Skrá mig arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí